Upp­gjörið: Breiða­blik - Víkingur 4-0 | Meistararnir með markaveislu í sólinni

Sesselja Ósk Gunnarsdóttir skrifar
breiðablik víkingur diego
vísir/Diego

Breiðablik vann 4-0 sigur gegn Víkingi í fjórðu umferð Bestu deildar kvenna í dag. Veðrið lék hreinlega við leikmenn Breiðabliks sem skoruðu fjögur mörk í leiknum. Blikar á toppi deildarinnar eins og er með tíu stig.

Það tók Blika einungis tíu mínútur að skora fyrsta mark leiksins sem kom eftir hornspyrnu Öglu Maríu. Heiða Ragney Viðarsdóttir kom boltanum yfir línuna eftir klafs í teignum. 

Birta Georgsdóttir var að sleppa inn fyrir vörn Víkings á 16.mínútu en var tekin niður af Áslaugu Dóru Sigurbjörnsdóttir sem fékk gult spjald fyrir. Agla María Albertsdóttir skoraði örugglega af punktinum og smellti boltanum í vinstra hornið.

Blikar héldu áfram að sækja á Víkinga í leit að þriðja markinu sem lá hreinlega í loftinu. Á 39. mínútu skoraði Agla María Albertsdóttir laglegt mark fyrir utan vítateig og boltinn hreinlega steinlá í markinu. Tvö mörk og stoðsending hjá Öglu Maríu Albertsdóttur í dag.

Seinni hálfleikur byrjaði af krafti hjá Víkingi sem voru duglegir að sækja á mark Breiðabliks en engin alvöru hætta á ferð.

Á 81. mínútu skorar varamaður Blika Hrafnhildur Ása Halldórsdóttir mark eftir frábæra sendingu frá Birtu Georgsdóttir sem var lífleg í seinni hálfleik og átti nokkur marktækifæri sem enduðu því miður ekki í netinu.

3 stig fyrir Breiðablik og komnar með 19 mörk eftir fjóra leiki.

Stjörnur og skúrkar

Agla María Albertsdóttir fyrirliði Blika sigldi sigrinum heim fyrir Blika með þátttöku sinni í þremur og fjórum mörkum dagsins.

Birta Georgsdóttir var virkilega góð í dag og hefði mátt skora úr eitthverjum af marktækifærunum sem hún fékk en stoðsending dugir í dag.

Linda Líf Boama, Bergþóra Sól Ásmundsdóttir og Bergdís Sveinsdóttir leikmenn Víkings eiga skilið hrós fyrir frammistöðu sína í leiknum í dag þrátt fyrir tap.

Dómararnir

Brynjar Þór Elvarsson með flautuna í dag og með honum var Guðmundur Valgeirsson og Eydís Ragna Einarsdóttir.

Engar erfiðar ákvarðanir í dag fyrir utan kannski vítið á 10. mínútu annars fóru dómararnir nokkuð þægilega í gegnum þennan leik.

Stemning og umgjörð

175 manns í stúkunni en ég hefði viljað sjá fleiri. Ákall á stuðningsmenn beggja liða að mæta á völlinn og styðja sitt lið áfram. Kannski voru allir bara í sundi hérna í höfuðborginni. Fjölmiðlamenn sammældust um að það vantaði mat og drykk í fjölmiðlastúkuna.

Viðtöl

„Við hættum ekkert fyrr en 90 mínútur eru búnar“

,,Mér fannst við spila ótrúlega vel og sérstaklega í fyrri hálfleik. Það var gott að fara inn í seinni hálfleik í stöðunni 3-0 en við gátum vel skorað fleiri mörk en bara frábærir spila kaflar hjá okkur.” sagði Agla María Albertsdóttir fyrirliði Breiðablik eftir sigur á móti Víking á Kópavogsvelli í dag.

Breiðablik er komið með 19 mörk eftir fjóra leiki og aðspurð hvort það mætti búast við fleiri stórum marka leikjum sagði Agla María Albertsdóttir að aðalmálið væri að vinna og liðið horfi aðallega á frammistöðu sína í leikjunum.

,,Það er ekkert sérstakt markmið hjá okkur að skora endalaust en við hættum ekkert fyrr en 90 mínútur eru búnar.”

Á öðrum degi hefði hún ollið okkur meiri vandamálum

,,Við náðum að standa af okkur pressuna í fyrri hálfleik og réðum leiknum að miklu leyti eftir fyrstu 10-15 mínúturnar. Á eitthverjum öðrum degi hefði Linda (leikmaður Víkings) kannski ollið okkur meiri vandamálum en við vörðumst nokkuð vel.”

,,Þegar við færum boltann hratt þá erum við sterkar og munum valda vandamálum fyrir hitt liðið en við þurfum að passa að sú spilamennska sé stöðugri.”

,,Ég er ánægður með spilamennsku allra í liðinu í dag, eða svona að mestu leyti.” sagði Nik Anthony Chamberlain þjálfari Breiðablik eftir leikinn á móti Víkingum í dag.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira