Atvinnulíf

„Var með skipt í miðju og notaði ó­hóf­legt magn af geli“

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Þegar Ólafur Karl Sigurðsson, aðstoðarforstjóri KLAPP, fermdist, notaði svo mikið hárgel að hann hefði getað staðið undir Hafnarfjalli án þess að greiðslan hefði haggast. Ólafur segir eiginkonuna á stundum vera eins og að ala upp fjögur börn; Að honum meðtöldum!
Þegar Ólafur Karl Sigurðsson, aðstoðarforstjóri KLAPP, fermdist, notaði svo mikið hárgel að hann hefði getað staðið undir Hafnarfjalli án þess að greiðslan hefði haggast. Ólafur segir eiginkonuna á stundum vera eins og að ala upp fjögur börn; Að honum meðtöldum! Vísir/Anton Brink

Ólafur Karl Sigurðsson, aðstoðarforstjóri KAPP og framkvæmdastjóri KAPP Skagans ehf, hefur aldrei þroskast í að drekka kaffi, en drekkur hins vegar það sem hann kallar unglingakaffi. Ólafur segir eiginkonuna eiga heiðurinn af því hversu vel gengur heima fyrir.

Í kaffispjalli um helgar er rætt við fólk í ólíkum störfum. Við spyrjum alltaf um það hvenær fólk vaknar á morgnana, hvað er það fyrsta sem það gerir þá og hvenær fer fólk að sofa. Við spyrjum líka um skipulagið og helstu verkefnin í vinnunni.

Hvenær vaknar þú á morgnana?

„Ég er yfirleitt vaknaður aðeins á undan vekjaraklukkunni, sem er um eða rétt fyrir klukkan sjö. Ég vil meina að það sé vegna hækkandi aldurs, en konan mín og vinir vilja skella skuldinni á óhóflega koffín neyslu. Ég hef aldrei náð þeim þroska að drekka kaffi, en drekk á móti unglinga-kaffi; Sykurlausa orkudrykki.“

Hvað er það fyrsta sem þú gerir á morgnana?

„Ef ég vakna mjög snemma nýti ég tækifærið og fer í ræktina fyrir vinnu. Það er snilld að ná að byrja daginn þar og enn betra ef hægt er að fara í kaldan pott eftir æfingu. 

En svona venjulega þegar ég vakna um sjö þá vek ég börnin mín þrjú og reyni að eiga smá tíma með þeim ef tími gefst til. Oftast er þó mikill hasar að koma öllum út í daginn á réttum tíma. 

Konan mín á allan heiður að því að allt á okkar heimili gangi upp, ég er meira í því að æsa börnin upp og vera með vitleysu. Þannig að það má segja að hún sé að ala upp fjögur börn að einhverju leyti með mér meðtöldum.

Það eftirminnilegasta úr fermingunni þinni?

Hárgreiðslan er klárlega það eftirminnilegasta úr fermingunni og frá þeim tíma. 

Ég var með skipt í miðju og notaði óhóflegt magn af geli sem stífaði hárið. 

Ég hefði getað staðið undir Hafnarfjallinu án þess að greiðslan myndi haggast, svo mikil var gel notkunin. 

Eins er minnisstætt að ég fékk hljómflutningsgræjur frá foreldrum mínum, sem var vinsælt á þessum árum. Foreldrar mínir sáu líklega fljótt eftir því, þar sem ég hlustaði á 90’s rapp öll kvöld.“

Ólafur er skipulagður í eðli sínu, tekur frá tíma í dagatalinu til að vinna í verkefnum, skipuleggur fundi vel og fer á kvöldin yfir fundi morgundagsins. Ólafur er alltaf með bók og penna á fundum, tekur fundarnótur og miðlar síðan upplýsingum og verkefnum á tímalínu eftir hvern fund.Vísir/Anton Brink

Í hvaða verkefni ertu að vinna helst í þessa dagana?

„Það er mikið um að vera hjá okkur í KAPP en í lok síðasta árs gengum við frá kaupum á bæði amerísku félagi, Kami Tech Inc, ásamt öllum eignum úr þrotabúi Skagans 3X. Við höfum unnið hörðum höndum að tvinna saman þessi félög og ná stöndugum rekstri. 

Stór partur síðustu daga hefur farið í sölumál sem og að undirbúa okkur undir Sjávarútvegssýninguna í Barcelona sem hefst 6. maí. Þar erum við að kynna KAPP samstæðuna. Við erum með bás á sýningunni þar sem við kynnum okkar lausnir fyrir viðskiptavinum, núverandi og nýjum. Þessi sýning var lengi haldin í Brussel en var færð til Barcelona fyrir fáeinum árum, sem var mikið gæfu skref. Hún er einskonar hápunktur ársins fyrir marga í greininni, þarna er mikið um að vera og allir sem tengjast geiranum hittast. Við erum búin að undirbúa okkur vel og hlökkum til sýningarinnar.“

Hvernig skipuleggur þú þig í vinnu?

„Ég er í eðli mínu mjög skipulagður og líður best ef ég hef nokkuð góða yfirsýn. Ég skipulegg fundi vel fram í tímann, ásamt því að blokka tíma til þess að vinna úr verkefnum og tryggja eftirfylgni. 

Á kvöldin fer ég ávallt yfir fundi morgundagsins og tryggi að öllum undirbúningi fyrir þá sé lokið. Í byrjun vinnudags reyni ég að nýta fyrsta klukkutímann til þess að renna yfir ólesinn tölvupóst og svara þeim málum áður en fundarhöld dagsins byrja. 

Ég er alltaf með bók og penna með mér á fundum, en þar tek ég fundarnótur og dreg saman þær aðgerðir sem þarf að ráðast í. 

Í framhaldi fundar deili ég þessum upplýsingum og verkefnum ásamt tímalínu til að tryggja að verkefni fái framgang. 

Ofan á þetta nota ég mikið tól eins og Microsoft Planner og Asana fyrir stærri verkefni sem til dæmis tengjast framleiðslu og þjónustu. Mér líkar að fylgjast vel með sölu- og fjárhagstölum og nýta gögn og mælikvarða til ákvörðunartöku í bland við reynslu.“

Hvenær ferðu að sofa á kvöldin?

„Í gegnum tíðina hef ég verið agalegur með þetta og farið alltof seint að sofa. En síðastliðin ár hef ég verið að reyna snúa þessu við, enda áttað mig á því að svefn er undirstaða góðrar heilsu. Ég reyni í dag að vera kominn uppí rúm um klukkan ellefu og sofnaður fyrir miðnætti. Það gengur ekki alveg alltaf, en þetta er allt að koma.“


Tengdar fréttir

Hressilega kaótískir morgnar sem eiga það til að klikka smá

Eva Þorsteinsdóttir, partner og Senior Account Manager hjá Sahara auglýsingastofu, sefur eins lengi og hún kemst upp með á morgnana. Þegar hún síðan fer loksins fram úr reynir hún að múltítaska eins og vindurinn, með tilheyrandi alls konar.

Hundurinn tannlaus og unglingarnir vaktir með diskaglamri

Tryggvi Björn Davíðsson, framkvæmdastjóri indó, viðurkennir að hann getur uppátækjasamur grallari þegar hann á lausa stund. Ekki síst í vinnunni þar sem honum finnst greinilega gaman að stríða samstarfsfólki sínu.

Elskar kaffi að ítölskum sið og línulega dagskrá

Sólveig Ása Tryggvadóttir, framkvæmdastjóri stuðningsfélagsins Krafts, kemst ekki í gang fyrr en hún er búin með fyrsta kaffibollann á morgnana. Og fer þá líka alla leið; fær sér kaffi að ítölskum sið með flóaðri mjólk. Sólveig viðurkennir að elska línulega dagskrá á RÚV.

„Væri samt mjög til í að vera betri söngvari“

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, segir lagið Blindsker alltaf koma sér í ákveðinn gír. Enda búinn að syngja með laginu frá því að hann var unglingur. Bogi átti mjög svo stuttan feril sem hljómsveitargaur og viðurkennir að hann væri alveg til í að vera betri söngvari.

Allt eða ekkert gellan sem er sjúk í Love is Blind

Guðrún Auður Böðvarsdóttir, markaðsstjóri S.Helgason steinsmiðju og framkvæmdastjóri SÓL restaurant, finnst hún flottust þegar hún vaknar klukkan fimm og nær að gera fullt af hlutum áður en hún vekur krakkana í skólann. Oftar en ekki endar hún þó á að snúsa og fer í sín morgunverk eftir að krakkarnir eru vöknuð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×