Breiðablik hélt áfram að raða inn mörkum en liðið vann 4-0 sigur á Víkingi á Kópavogsvelli. Agla María Albertsdóttir skoraði tvö mörk fyrir Íslandsmeistarana og Heiða Ragney Viðarsdóttir og Hrafnhildur Ása Halldórsdóttir sitt hvort markið.
Blikar hafa skorað nítján mörk í fyrstu fjórum leikjum tímabilsins og eru á toppnum með tíu stig. FH og Þróttur eru einnig með tíu stig en þau unnu bæði í gær.
FH fór í góða ferð til Akureyrar og vann 0-3 sigur á Þór/KA í Boganum. Valgerður Ósk Valsdóttir, Berglind Freyja Hlynsdóttir og Elísa Lana Sigurjónsdóttir skoruðu mörk FH-inga. Akureyringar hafa tapað síðustu tveimur leikjum sínum með markatölunni 0-6.
Aðeins eitt mark var skorað þegar Þróttur fékk Tindastól í heimsókn. Það gerði Freyja Karín Þorvarðardóttir strax á upphafsmínútu leiksins. Þróttarar eru sem fyrr sagði með tíu stig en Stólarnir hafa tapað þremur leikjum í röð og eru með þrjú stig.
Eftir að hafa tapað fyrstu tveimur leikjum sínum með markatölunni 3-12 hefur Stjarnan nú unnið tvo leiki í röð. Í gær sigruðu Stjörnukonur Valskonur í Garðabænum, 1-0. Jakobína Hjörvarsdóttir skoraði markið.
Þá vann Fram FHL í nýliðaslagnum, 2-0. Þetta var fyrsti sigur Framara í efstu deild síðan 1988. Sara Svanhildur Jóhannsdóttir og Alda Ólafsdóttir skoruðu mörk Fram snemma leiks. Framarar fengu þar með sín fyrstu stig í deildinni en Austfirðingar eru stigalausir á botninum.
Mörkin úr öllum leikjum gærdagsins má sjá hér fyrir ofan.