Handbolti

Haukarnir byrjaðir að fylla í skarð Elínar Klöru

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aníta Eik Jónsdóttir spilar með Haukum í Olís deild kvenna á næstu leiktíð.
Aníta Eik Jónsdóttir spilar með Haukum í Olís deild kvenna á næstu leiktíð. @haukar_handbolti

Kvennalið Hauka í handboltanum er byrjað að styrkja sig fyrir næstu leiktíð þótt liðið sé enn í miðri úrslitakeppni þar sem liðið mætir Val í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitilinn.

Haukar kveðja hina frábæru Elínu Klöru Þorkelsdóttur eftir þetta tímabil en markahæsti leikmaður Olís deildar kvenna er á leiðinni út í atvinnumennsku. Haukarnir eru þegar byrjaðir að undirbúa næsta tímabil þegar kemur að leikmannamálum kvennaliðsins.

Handknattleiksdeild Hauka opinberaði í dag nýjan leikmann en hún hefur samið við Anítu Eik Jónsdóttur sem kemur til liðsins frá HK.

Aníta Eik er uppalin hjá HK og hefur verið einn af lykilmönnum liðsins undanfarin ár í Grill 66 deildinni.

„Aníta sem getur leyst af allar stöður fyrir utan skoraði 83 mörk í 18 leikjum í Grill 66 deildinni og 13 mörk í 2 leikjum í umspilinu fyrir HK á tímabilinu,“ segir í frétt á miðlum Hauka.

Aníta er fædd árið 2004 og er því jafnaldri Ingu Dísar Jóhannsdóttur sem fór frá HK til Hauka fyrir tveimur árum síðan. Hún og Aníta léku saman upp alla yngri flokka HK. Aníta hefur einnig spilað með mörgum af Haukastelpunum í yngri landsliðum Íslands.

Það verður ekki auðvelt að fylla í skarð Elínar Klöru sem var bæði markahæst og stoðsendingahæst í Olís deildinni í vetur með 8,0 mörk og 4,9 stoðsendingar að meðaltali í leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×