Í kaffispjalli um helgar er rætt við fólk í ólíkum störfum. Við spyrjum alltaf um það hvenær fólk vaknar á morgnana og hvað er það fyrsta sem það gerir þá. Við spyrjum líka um skipulagið og helstu verkefnin í vinnunni.
Hvenær vaknar þú á morgnana?
„Ég vakna yfirleitt eins og klukka klukkan 7:30 og hef gert það svo lengi sem ég man eftir. Oftast sprækur eftir átta tíma svefn.“
Hvað er það fyrsta sem þú gerir á morgnana?
„Ég hef ekki vanist ennþá að drekka kaffi en byrja á að kveikja á kaffivélinni fyrir konuna og hrista í grænan heilsusafa fyrir okkur hjónin. Unglingarnir sjá um sig sjálfir, en hundurinn okkar hún Emma fær smá þjónustu og klapp.“
Hvernig lýsir það sér hjá þér þegar þú færð lag á „heilann?“
Þá syng ég það hástöfum fyrir fjölskylduna, þeim til mikils hryllings.
Ég er fullkomlega laus við alla listræna hæfileika en hef svosem ekki látið það stoppa mig í að spreyta mig fyrir framan þau.
Börnin okkar eru hins vegar miklir móður- og föður betrungar og búa yfir hæfileikum í dans og söng.“

Í hvaða verkefni ertu að vinna helst í þessa dagana?
„Starfið er gríðarlega fjölbreytt og dagarnir mjög ólíkir hver öðrum. Ég er nýkominn heim af sjávarútvegssýningunni í Barcelona þar sem við hittum mikinn fjölda af bæði innlendum og erlendum viðskiptavinum.
Það stendur líka yfir mikil vinna þessa dagana við undirbúning á sölu ríkisins á hlut í bankanum og verður virkilega spennandi að halda áfram að kynna bankann fyrir bæði fjárfestum og almenningi.
Þetta ár hefur verið mikið sóknarár hjá okkur í bankanum og við innleiddum nýja stefnu í upphafi árs sem við höfum verið að innleiða. Slíku ferli fylgir mikil stemning þegar við erum að fylgja úr hlaði mikið af nýjum verkefnum.“
Hvernig skipuleggur þú þig í vinnu?
Það er stöðug áskorun að skipuleggja sig betur. Ég er bókaður frá morgni til kvölds flesta daga og þarf því oft að liggja yfir tölvupóstum og að lesa ýmislegt til fróðleiks á kvöldin.
Oft eru ákveðnar áherslur fyrir einstaka vikur, til að mynda var mikil áhersla á stefnumótun í janúar á meðan maí verður nýttur meira í að hitta fjárfesta og viðskiptavini.“
Hvenær ferðu að sofa á kvöldin?
„Ég reyni að sofna klukkan hálf tólf til að ná mínum átta tíma svefni. Reyni oft að lesa eitthvað gáfulegt, en við hjónin freistumst ansi oft til að horfa á eitthvað léttmeti í spjaldtölvunni.
Er ansi góður að stilla mig af og hugsa alltaf um sama hlutinn þegar ég leggst á koddann og sofna því yfirleitt á tveimur mínútum. Það svínvirkar oftast að hugsa um síðasta golfhring – þá sofna ég fljótt.“