Handbolti

Viktor Gísli búinn að semja við Barcelona

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Viktor Gísli Hallgrímsson er á leið til Spánarmeistara Barcelona.
Viktor Gísli Hallgrímsson er á leið til Spánarmeistara Barcelona. epa/Anne-Christine Poujoulat

Landsliðsmarkvörðurinn í handbolta, Viktor Gísli Hallgrímsson, hefur samið við Barcelona. Hann yfirgefur Wisla Plock í Póllandi eftir tímabilið og gengur í raðir Evrópu- og Spánarmeistaranna. Samningur Viktors við Barcelona gildir til 2027.

Viktor hefur verið orðaður við Barcelona í töluverðan tíma og nú hefur eitt versta geymda leyndarmál handboltans verið staðfest.

Spænski landsliðsmarkvörðurinn Gonzalo Pérez de Vargas fer til Kiel eftir tímabilið og Viktor mun fylla hans skarð hjá Barcelona og mynda markvarðateymi liðsins með Dananum Emil Nielsen.

Viktor, sem er 24 ára, hefur leikið sem atvinnumaður síðan 2019; fyrst með GOG í Danmörku um þriggja ára skeið, svo með franska liðinu Nantes í tvö ár áður en hann fór til Wisla Plock fyrir þetta tímabil.

Viktor verður fjórði Íslendingurinn til að spila fyrir Barcelona á eftir Viggó Sigurðssyni, Guðjóni Val Sigurðssyni og Aroni Pálmarssyni.

Barcelona hefur unnið spænsku deildina öll tímabil síðan 2010-11 og vann Meistaradeild Evrópu í fyrra, í tólfta sinn. Barcelona er komið í úrslitahelgi Meistaradeildarinnar á þessu tímabili og mætir Íslendingaliði Magdeburg í undanúrslitunum.

Viktor hefur leikið 71 leik fyrir íslenska A-landsliðið. Hann var valinn í úrvalslið Evrópumótsins 2022 og var með næstbestu hlutfallsmarkvörsluna á heimsmeistaramótinu í janúar, á eftir einmitt hinum danska Nielsen og Frakkanum Samir Bellachene.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×