Atvikið átti sér stað í fyrri hálfleik en þá sendi varnarmaðurinn Josko Gvardiol langan bolta fram á Erling Haaland. Dean Henderson markvörður Crystal Palace hikaði í úthlaupinu áður en hann rétti út höndina og blakaði boltanum burt frá Haaland. Snertingin átti sér augljóslega stað utan vítateigsins.
VAR skoðaði atvikið en aðhafðist ekkert og sagði Henderson ekki hafa rænt Haaland augljósu marktækifæri. Það sem VAR tekur til greina þegar skera á úr um hvort um augljóst marktækifæri sé að ræða er fjarlægð frá markinu, í hvaða átt boltinn er að fara, hversu líklegt sé að sóknarmaður haldi eða nái stjórn á boltanum og loks staðsetning og fjöldi varnarmanna.

Handleiki markvörður knöttinn utan vítateigs þýðir það ekki sjálfkrafa rautt spjald og VAR skoðar aðeins hvort um sé að ræða brot sem verðskuldar rautt spjald. Þar sem boltinn var ekki á leið beint í átt að marki var úrskurður VAR að Henderson hefði ekki rænt Haaland augljósu marktækifæri en City hefði átt að fá aukaspyrnu við teiginn.
„Burt með VAR“
Wayne Rooney var sérfræðingur í útsendingu BBC frá úrslitaleiknum og hann sagði í umfjöllun eftir leikinn að Dean Henderson hefði átt að fá rautt spjald í leiknum fyrir að handleika knöttinn utan vítateigs.
„Þetta er rautt spjald, þetta er 100% rautt spjald. Erling Haaland er við það að fara framhjá honum og Dean Henderson sópar boltanum í burtu. Þetta er rautt spjald, hvernig getað þeir klikkað á þessu?“ sagði Rooney eftir leikinn.

Eftir að hann heyrði af úrskurði VAR sagði hann.
„Burt með VAR. Þeir gerðu mistök og nú eru þeir að reyna að bjarga sér. Þetta er rautt spjald og það sjá það allir. Að koma svo með þetta bull...“
Annar fyrrum enskur landsliðsmaður var einnig sérfræðingur hjá BBC og hann sagði Henderson hafa verið heppinn.
„Reglan snýst um að hann er að hlaupa í átt frá marki en Henderson er líka að stoppa augljóst tækifæri til að skora.