Staðreyndin er þó sú að mörgu fólki getur farið að leiðast dagleg rútína svo mikið, að þótt það upplifi sig hamingjusamt í hjónabandinu og allt það, þá einfaldlega er hætt að vera gaman nógu oft.
Að hafa gaman alla daga er hins vegar svo gott og skemmtilegt verkefni. Og snýst ekkert um að allt sem við gerum sé svo skemmtilegt. Heldur einfaldlega að það sé eitthvað á hverjum degi sem okkur finnst skemmtilegt.
Á netinu er hægt að finna heilan haug af góðum ráðum þessu tengt. Því já; það er ekkert óalgengt að fólki fari að finnast daglega rútínan leiðinleg. Ekki síst hjá hjónum sem hafa verið lengi saman.
Við skulum því kíkja á nokkur góð ráð sem geta veitt okkur innblástur:
1. Að ræða við betri helminginn
Við þurfum að viðurkenna vandann og ræða við makann okkar ef okkur leiðist rútínan okkar. Látum vita í þessu samtali að okkur langi til að hrista aðeins upp í hlutunum, þannig að rútínan okkar verði meira spennandi; Meiri gleði, hlátur, samtöl, innileg nærvera. Hverjum líst ekki vel á það plan?
2. Sjálfskoðun og samtal
Það er líka gott að taka heiðarlegt samtal við okkur sjálf. Hefur eitthvað breyst hjá okkur sjálfum sem gerir það að verkum að rútínan sem við höfum kannski lifað samkvæmt lengi, er ekki að gefa okkur næga lífsfullnægju miðað við áður? Hvenær fór okkur að líða eins og okkur líður núna?
Að ræða þetta líka við makann er síðan mjög gott. Því jú; Við erum í sama liðinu.
3. Hrifningin á makanum
Stundum hættir hjónum til að hætta að taka eftir hvort öðru; Makinn er orðinn að svo sjálfsögðum hlut.
En hvað heillaði okkur í fyrstu?
Og hvað við okkur heillaði makann okkar í upphafi?
Það getur verið skemmtileg vegferð að fara að taka aftur eftir makanum okkar. Og láta vita af því.
Eftir margra ára parsamband eigum við ekki að vera feimin við að brjóta eitthvað munstur sem algengt er að hjón einfaldlega festist í.
4. Hristum aðeins upp í þessu!
Næst er það að skoða hvað við getum gert öðruvísi og einfaldlega þá þannig að við séum að hrista aðeins upp í rútínunni. Ekkert endilega að breyta öllu; Þess þarf sjaldnast. En að breyta sumum hlutum eða leyfa jafnvel hvatvísi og hugmyndarflugi stundum að kikka inn og prófa eitthvað nýtt gæti verið skemmtilegt.
Og spyrja okkur sjálf þá spurninga eins og:
Hvenær gerðum við eitthvað nýtt saman síðast?
Er eitthvað sem okkur langar til að prófa saman?
Hvað með áhugamál: Er eitthvað sem við gætum ræktað betur saman? Dans, golf, matreiðslunámskeið, jóga?
Hvernig væri að skella sér á stefnumót? Og jafnvel að búa til regluleg deit-kvöld?
5. Nándin
Næst er það nándin. Sem snýst ekki bara um kynlíf. Oft þarf ekki nema faðmlag eða koss. En stundum getur verið gaman að prófa eitthvað nýtt í rúminu. Það er hægt að gúggla heilmikið um þessi mál eða leita til kynlífsráðgjafa og fá hugmyndir.
6. Hlátur
Ekkert okkar ætti síðan að vanmeta áhrif hlátursins. Því það að hlæja saman og hafa gaman getur einfaldlega breytt öllu. Allt í einu fer okkur að finnast meira gaman af því sem við höfum kannski gert lengi og var farið að finnast óspennandi.
En ef við æfum okkur í að vera oftar í góðum samtölum og létt og kát, ákveðin í að brosa og hlæja oftar og meir, getur svo margt jákvætt gerst.
7. Liðsaukinn: Að leita til fagaðila
Síðast en ekki síst er það sú leið að taka samtalið með utanaðkomandi fagaðila. Því það er svo fjarri því að fólk leiti aðeins til hjónabandsráðgjafa eða kynlífsráðgjafa vegna þess að það er allt komið í bál og brand. Margir nýta sér það að hitta fagaðila reglulega; Einfaldlega til að gera gott betra.
Og kannski skemmtilegra líka?