Arnar hætti störfum hjá KA haustið 2022 til að taka við Val, eftir að hafa stýrt KA í rúm tvö ár.
Ákvæði var í samningi Arnars við KA um að hann fengi ákveðið hlutfall, tíu prósent, af Evrópugreiðslum frá UEFA en félaginu bárust þær greiðslur ekki fyrr en árið eftir að Arnar fór.
Heildarupphæðin sem KA fékk var 550.000 evrur þegar liðið, þá undir stjórn Hallgríms Jónassonar sem áður var aðstoðarmaður Arnars, komst í gegnum fyrstu og aðra umferð undankeppni Sambandsdeildarinnar sumarið 2023.
Í dómi Landsréttar í dag var fallist á með héraðsdómi að Arnar hefði verið þjálfari liðsins samkvæmt samningi er liðið vann sér inn þátttökurétt í Evrópukeppninni, þótt vinnuframlag hans hefði verið afþakkað.
Einhliða ákvörðun KA um að afþakka vinnuframlag Arnars í síðustu fimm leikjum tímabilsins gæti ekki fellt niður rétt hans til árangursgreiðslu samkvæmt samningnum.
Arnar átti því rétt á tíu prósentum af þeirri heildarfjárhæð sem KA fékk greitt fyrir þátttökuna í Sambandsdeildinni 2023, að frádregnum ferðakostnaði félagsins.
Óvíst er hvort KA hyggist áfrýja málinu til Hæstaréttar en ekki náðist í Sævar Pétursson, framkvæmdastjóra félagsins, við vinnslu fréttarinnar. Lögmaður Arnars, Heiðar Ásberg Atlason, sagði þó í samtali við Vísi að honum þætti það ólíklegt.