Sigurður Bjartur kom FH í 1-0 eftir rúmlega hálftíma leik eftir að hafa lyft boltanum yfir varnarmann og tekið hann viðstöðulaust á lofti.
„Þetta var geðveik frammistaða, eins og alltaf í Kaplakrika. Við þurfum að finna leið til þess að flytja Kaplakrika frammistöðurnar á útivöll. Þá förum við að safna stigum að alvöru,“ sagði markaskorarinn Sigurður Bjartur Hallsson í viðtali við Vísi eftir leikinn.
„Við í raun og veru leyfum þeim að hafa boltann og stýra leiknum. Mér fannst þeir í raun ráðalausir ef þeir þurftu að stýra honum og við reyndum að beita skyndisóknum þegar við unnum boltann hátt á vellinum sem gekk mjög vel,“ sagði Sigurður Bjartur og fór yfir frábært mark sitt:
„Mér fannst varnarmaðurinn loka á snertinguna inn á völlinn þannig ég lyfti boltanum yfir hann, boltinn skoppaði svo frekar hátt þannig ég fór beint í klippuna.“
Það má sjá þetta magnaða mark hér fyrir neðan.