Íslenski boltinn

„Rosa­lega vit­laust á þessum tíma­punkti í leiknum“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Axel Óskar Andrésson varð í gær fyrsti leikmaður Aftureldingar í efstu deild til að fá rautt spjald.
Axel Óskar Andrésson varð í gær fyrsti leikmaður Aftureldingar í efstu deild til að fá rautt spjald. Sýn Sport

Axel Óskar Andrésson skildi sína menn í Aftureldingu eftir í slæmum málum í Garðabænum í gær þegar hann fékk tvö gul spjöld með aðeins sex mínútna millibili í fyrri hálfleiknum.

Afturelding var 1-0 yfir þegar Axel Óskar fékk rauða spjaldið en Mosfellingar þurftu því að leika í rúman klukkutíma manni færri og Stjarnan vann á endanum 4-1 sigur.

Axel Óskar varð þarna fyrsti leikmaður Aftureldingar í efstu deild til að fá rautt spjald.

Sérfræðingar Stúkunnar ræddu brotið og rauða spjaldið.

Klippa: Stúkan: Umræða um rauða spjaldið á Axel

„Það er oft talað um að mörk breyti leikjum en það má segja að rautt spjald hafi breytt þessum leik,“ sagði Kjartan Atli Kjartansson, umsjónarmaður Stúkunnar, og bað sérfræðinga sína um þeirra skoðun á rauða spjaldinu.

Ekki í fyrsta skiptið

„Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem hann gerir svona, Mér finnst þetta svolítið kjánalegt að henda sér niður á gulu spjaldi því þetta er svona gul-rautt spjald,“ sagði Arnar Grétarsson, sérfræðingur Stúkunnar.

„Það er búið að koma nokkrum sinnum fyrir að hann hafi sloppið en þetta rosalega vitlaust á þessum tímapunkti í leiknum,“ sagði Arnar.

„Það var á móti ÍA þar sem hann fór í svipaða tæklingu en slapp ,“ sagði Kjartan.

Hann yfirgírast

„Axel er agressífur leikmaður, hann vill fara í návígi og vill fara upp í framherjana. Hann lifir svolítið á því. Þarna hleypur honum bara kapp í kinn og hann yfirgírast,“ sagði Ólafur H. Kristjánsson, sérfræðingur Stúkunnar.

„Hvað ætlar hann að gera með boltann liggjandi á jörðinni? Hann er kannski að reyna að blokkera einhverja sendingu út á kant en farðu upp í hann og bakkaðu svo af honum. Þetta atvik hafði stór áhrif á leikinn,“ sagði Ólafur.

Það má finna umræðuna um rauða spjaldið hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×