Umræðan

Tollar ESB – kjarn­orkuákvæðið

Jóhannes Karl Sveinsson skrifar

EES-samningurinn gengur beinlínis út á að um einn markað sé að ræða með frjálsu flæði á vörum, fólki, fjármagni og þjónustu. Þegar þetta er skrifað er lítið vitað um efnisleg rök ESB fyrir því að leggja sérstaka tolla eða kveða á um lágmarksverð á útflutning Íslendinga og Norðmanna á unnum málmum inn á ESB svæðið.

Íslensk stjórnvöld hafa ekki talað af sér um málið en sjá má af umfjöllun í norskum fjölmiðlum að EES-ríkin hafa fengið bréf frá framkvæmdastjórn ESB þar sem boðaður er tollur sem miðist við lágmarksverð í ESB. Sagt er að ESB hafi rökstutt þetta með því að innflutningur hafi valdið alvarlegum skaða á iðnaði innan sambandsins, framleiðsla hafi minnkað, markaðshlutdeild minnkað og störfum fækkað. Aðgerðirnar eigi að gilda til að byrja með í 200 daga, frá 19. ágúst næstkomandi. Verð hlutabréfa í Elkem í Noregi lækkaði um 5% við þessar fréttir.

Í bréfi ESB til stjórnvalda mun vera byggt á því að ráðstöfunin styðjist við 112 og 113. gr. EES-samningsins. Það fjallar um rétt til að beita einhliða ráðstöfunum ef upp koma «alvarlegir, þjóðfélagslegir eða umhverfislegir erfiðleikar … sem líklegt er að verði viðvarandi». Lögð er áhersla á meðalhóf, þ.e. að aðgerðirnar séu takmarkaðar eins og hægt er í tíma og að umfangi við það «sem telst bráðnauðsynlegt».

Íslensk og norsk stórnvöld hljóta að bregðast hart við og það kæmi á óvart ef ESB léti verða af því að beita ráðstöfununum. Ef svo fer hins vegar á [...] Ísland meðal annars rétt á því að vísa deilu til gerðardóms.

Það þarf því mjög mikið að koma til svo heimilt sé að beita þessum ákvæðum, og það má heldur ekki ganga lengra en nauðsyn krefur. Það felur í sér að aðgerðirnar þurfa líka að vera líklegar til að ná tilætluðum og lögmætum tilgangi á tiltölulega stuttum tíma. Fyrirfram er erfitt að sjá fyrir sér að útflutningur á unnum málmum frá Íslandi til Evrópu hafi valdið þeirri hættu sem þarf að vera til staðar, hvað þá að tímabundnar verðþvinganir eða tollar geti afstýrt hættunni á tiltölulega skömmum tíma. Því má líka bæta við að þessar heimildir eru algjör undantekningarákvæði og verða að skýrast þröngt.

Íslensk og norsk stórnvöld hljóta að bregðast hart við og það kæmi á óvart ef ESB léti verða af því að beita ráðstöfununum. Ef svo fer hins vegar, og málið leysist ekki á grundvelli sameiginlegu EES-nefndarinnar, á Ísland meðal annars rétt á því að vísa deilu til gerðardóms, en sú málsmeðferð verður þó takmörkuð við umfang og gildistíma en ekki hvort heimilt hafi verið að grípa til þeirra.

Ef þetta mál þróast á versta veg gæti reynt á ákvæði EES-samningsins með áður óþekktum hætti. Í ljósi þróunar í alþjóðamálum, þar sem virðing fyrir milliríkjasamningum, alþjóðastofnunum og jafnræði ríkja hefur farið dvínandi, þarf það kannski ekki að koma svo mikið á óvart.

Höfundur er lögmaður og meðeigandi á Landslögum.  Greinin birtist fyrst á vefsíðu Landslaga fyrr í vikunni.




Umræðan

Sjá meira


×