Atvinnulíf

„Það er hægt að byrja að fjár­festa með fimm þúsund krónum á mánuði“

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Katrín Rós Gunnarsdóttir, forstöðumaður reksturs og þróunar hjá Arion banka, útskrifaðist nýlega með MBA gráðu úr Háskóla Íslands. Lokaverkefni Katrínar var rannsókn á fjárfestingavenjum kvenna og átakinu Konur fjárfestum sem Arion banki stendur fyrir. Ríflega 300 FKA konur tóku þátt í rannsókninni. 
Katrín Rós Gunnarsdóttir, forstöðumaður reksturs og þróunar hjá Arion banka, útskrifaðist nýlega með MBA gráðu úr Háskóla Íslands. Lokaverkefni Katrínar var rannsókn á fjárfestingavenjum kvenna og átakinu Konur fjárfestum sem Arion banki stendur fyrir. Ríflega 300 FKA konur tóku þátt í rannsókninni.  Vísir/Anton Brink

„Átakið er klárlega að virka því frá því að átakið hófst, hefur konum sem stunda sjóðaviðskipti hjá bankanum fjölgað um 19%. Á sama tíma hefur körlum fjölgað um 11%,“ segir Katrín Rós Gunnarsdóttir forstöðumaður reksturs og þróunar hjá Arion banka um átakið Konur fjárfestum.

Konur eru nú um 41% þeirra einstaklinga sem stunda sjóðaviðskipti hjá Arion banka en frá því að átakið Konur fjárfestum hófst, hafa viðskipti kvenna í sjóðum aukist um 11%. En hjá körlum 6%.

Katrín Rós segir augljósa vakningu í gangi meðal kvenna. Sem til að mynda hefur skilað því að um sex þúsund konur hafa mætt á viðburði átaksins frá því að það hófst.

Þá séu konur einfaldlega að sýna sig sem virkari þátttakendur í sjóðaviðskiptum miðað við áður.

„Við sáum til dæmis að konur tóku mjög virkan þátt í útboði Íslandsbanka í vor,“ segir Katrín sem nýlega útskrifaðist hún með MBA gráðu úr Háskóla Íslands.

Þar tók hún fyrir fjárfestingavenjur kvenna með viðamikilli rannsókn sem unnin var í samstarfi við Háskóla Íslands og skilaði svörum frá yfir 300 konum í FKA, Félagi kvenna í atvinnulífinu.

Gott spark í rassinn

Það má segja að Katrín Rós sé hokin af reynslu þegar kemur að bankageiranum. Enda hefur hún starfað í ýmsum störfum innan bankans og forverum hans síðastliðinn tuttugu ár; Allt frá einstaklingssviði til fyrirtækjasviðs eða ólíkra stoðsviða.

„Ég hafði lengi haft á tilfinningunni að konur fjárfesti öðruvísi en karlmenn, ekki síst upplifði ég þetta þegar ég var útibústjóri í vesturbænum. En ég var ekki með gögn til að staðfesta það,“ segir Katrín þegar hún útskýrir aðdragandann að MBA verkefninu sínu.

„Kveikjan að verkefninu var síðan kynning Iðu Brár Benediktsdóttur, aðstoðarbankastjóra Arion banka, á verkefninu Konur fjárfestum, þar sem hún sýndi graf sem sýndi eignir barna undir tveggja ára, þar mátti sjá að 60% væru í nafni drengja en aðeins 40% í nafni stúlkna. 

Þetta speglaði mína eigin reynslu, þar sem gjafir til stúlkna eru gjarnan skartgripir, en til drengja peningagjafir eða fjárfestingar.“

Leiðbeinandi Katrínar í háskólanum var Ásta Dís Óladóttir prófessor en svarendahópur könnunarinnar var breiður hópur FKA kvenna.

„Ekki aðeins af landinu öllu heldur líka í aldri því sú yngsta sem tók þátt er 17 ára en sú elsta á áttræðisaldri,“ segir Katrín og brosir.

Og það er ýmislegt mjög fróðlegt í þeim svörum sem FKA konurnar gáfu.

Til dæmis hversu áþreifanlega konum finnst vanta meiri fræðslu um fjárfestingar.

Að mati Katrínar er átakið þegar búið að sanna sig sem eitt besta heppnaðasta fjárfestingarátak sinnar tegundar. Það sjáist til dæmis í þeim svörum sem konurnar gáfu sem ,,opin svör.“

Skemmtilegar tilvitnanir eru til dæmis:

„Það gaf mér spark í rassinn til að byrja að skoða sjóði og fjárfesta í litlu.“

„Átakið varð til þess að ég fór að hlusta á hlaðvörp um fjármál og skráði mig á námskeið“

„Við fjárfestum til að dreifa áhættu, hagnast og byggja upp eignasafn.“

„Hef ekki fjárfest en langar að fjárfesta til áhrifa.“

Átakið Konur fjárfestum hefur nú þegar skilað því að konum í sjóðaviðskiptum hjá Arion banka hefur fjölgað um 19% frá því að átakið hófst í ársbyrjun 2024 en konur eru nú 41% einstaklinga sem stunda sjóðaviðskipti. Í niðurstöðum rannsóknarinnar má sjá að konur kalla skýrt eftir meiri ráðgjöf og fræðslu um fjárfestingar.Vísir/Anton Brink

Áhugaverðar niðurstöður

Þegar Katrín fór af stað, velti hún fyrir sér: Hverjar eru raunverulegar hindranir þess að konur taki þátt í fjárfestingum og hvernig getur markvisst átak haft áhrif?

„Ég skoðaði vitund, viðhorf og hegðun í tengslum við átakið, sem og hindranir og hvatir kvenna til þátttöku í fjárfestingum.“

Langflestar konurnar höfðu heyrt um átakið Konur fjárfestum, eða 93%. Og yfir 80% kvennana töldu átakið gagnlegt.

Það sem Katrínu finnst hins vegar ein stærsta og merkilegasta niðurstaðan er hversu líklegt átakið er til að hvetja fleiri konur til að byrja að fjárfesta.

„Því 20% aðspurðra sögðust hafa aukið fjárfestingar í kjölfar átaksins en tveir þriðju sögðust áhugasamar um að hefja fjárfestingar þó þær væru ekki enn farnar af stað.“

Í svörum kvennanna má hins vegar sjá að þær slá ýmsa varnagla.

Dæmi:

„Ég fjárfesti aðeins í fasteign – finnst það öruggara fyrir mig.“.

„Ég vil frekar spara en fjárfesta nema ég fái meiri fræðslu.“

„Það sem er mjög áberandi í niðurstöðunum er að konur vilja fá meiri fræðslu um fjárfestingar en eins að þær konur sem hafa fengið fræðslu, eru líklegri til að fjárfesta,“ segir Katrín sem dæmi um áhugaverðar niðurstöður.

Margt rími við niðurstöður úr alþjóðlegum könnunum. Til dæmis hvort konur eru einhleypar og síður líklegar til að fjárfesta, eða í hjónaböndum.

Þó var munur í einstaka liðum. Til dæmis sýna niðurstöður erlendra rannsókna að konur vilja fá ráðgjöf frá öðrum konum og virðast með því, hafa meiri trú á sjálfri sér og sinni getu til að fjárfesta. Þessi kynjaskipting virtist ekki svona skýr hjá FKA konunum, sem þó kölluðu skýrt eftir fyrirmyndum og reynslusögum frá konum sem hafa fjárfest.

Almennt er þó vitað að til samanburðar við karlmenn, horfa konur meira á tekjuhorfur og ábyrgð á heimilinu, áhættuviljinn er minni og almennt minni líkur á vanskilum.

Að fá meiri fræðslu og betri ráðgjöf var þó áberandi.

„Það er auðvitað ekki gaman fyrir neina banka að heyra þetta, en 60% kvennanna sögðust vilja fá betri ráðgjöf um fjárfestingar. Með tilliti til þess að 2/3 hluti kvennana sem hafa áhuga á að fjárfesta en eru ekki byrjaðar, er þetta mjög mikilvægt atriði til að skoða,“ segir Katrín.

Í svörum mátti meðal annars sjá að konur upplifa átakið Konur fjárfestum sem gott spark í rassinn. Þær vilja hins vegar fá meiri ráðgjöf og fræðslu og vita í hvað fjárfestingarnar þeirra fara í. Í niðurstöðum rannsóknarinnar má sjá að konur sem fá ráðgjöf, eru líklegri til að fjárfesta.

Hægt að byrja smátt en hugsa stórt

Við stofnun nýs Rannsóknarseturs um jafnrétti í efnahags- og atvinnulífi undir hatti Háskóla Íslands síðastliðið vor, var tilkynnt um stuðning Arion banka við starf rannsóknarsetursins en löngum hefur það talist mikilvægt jafnréttismál að jafna hlut kvenna í fjárfestingum.

Í nýútkominni skýrslu Arion banka er vandamálið krufið. Meðal annars það að það muni taka 70 ár að jafna þennan hlut kynjanna nema eitthvað breytist. Tekjur eru enn hærri hjá körlum en konum og kynjuð skipting fjármagns hefst strax hjá ungabörnum.

Þá eru 76% framkvæmdastjóra karlmenn og forstjórar í Kauphöll Íslands eru 29 karlmenn en fjórar konur.

Í þessari sömu skýrslu kemur samt líka fram að til dæmis konur undir 30 ára eru með hærri meðaleign en karlar í sjóðum Stefnis.

Sem er ágætis dæmi um hversu megnugar konur geta verið í sínum fjárfestingum.

En hvers vegna telur þú konur almennt fjárfesta í minna mæli en karlmenn?

Ég held að þær mikli þetta oft fyrir sér. 

Sem kemur aftur inn á mikilvægi fræðslunnar og að ráðgjafar séu einstaklingar sem þær geta samsvarað sig við. 

Ég held að konur vilji hafa á tilfinningunni að einhver haldi í höndina á þeim fyrst þegar þær fara af stað en eins kom líka í ljós í rannsókninni að það skiptir konur máli í hverju þær fjárfesta,“ 

segir Katrín og skýrir út:

„Könnunin sýndi að konur vilja vita hvaða áhrif fjárfestingarnar þeirra. Ekki bara að fjárfestingin hafi farið í eitthvað.“

Sem dæmi um þetta, má benda á eftirfarandi tilvitnanir úr opnum svörum:

„Hef ekki fjárfest en langar að fjárfesta til áhrifa.“

„Ég vil styrkja/taka þátt í ákveðnum verkefnum til að auka möguleikann á að þau nái framgangi.“

Katrín telur konur oft mikla fyrir sér að fjárfesta, það  þurfi þó ekki að vera flókið né kalla á háar upphæðir til að byrja með. Athygli vekur að konur yngri en þrítugar eru með hærri meðaleign en karlar í sjóðum Stefnis.Vísir/Anton Brink

Katrín telur líka mikilvægt að mæta konum með ráðgjöf og fræðslu, eins og þeim hentar best.

„Konur gefa sér sjaldnar tíma til að bóka fund með ráðgjafa og fara yfir málin. Ein af tillögunum mínum til bankans er að auka á fræðslu og upplýsingar fyrir konur með því að vera með þessa fræðslu aðgengilega á netinu þannig að konur geti sótt sér fræðslu þegar þeim hentar og að í boði sé stafræn ráðgjöf.“

Katrín telur að oft snúist spurningin einfaldlega um hvernig hægt er að fara af stað. Sem dæmi um tilvitnun úr könnun má benda á:

„Það væri frábært ef meira væri farið í að útskýra markaðinn og hvernig ég geti byrjað smátt.“

Svörin sýna þó að konur eru ekkert endilega feimnar við að hugsa stórt.

„Auðveldara að fjárfesta í erlendum fyrirtækjum væri gaman að kunna.

Niðurstöðurnar sýndu að 40% kvennanna hafa áhuga á að fjárfesta til að byggja upp eignasafn og 30% vilja hagnast á því. Tillögur Katrínar til bankans taka því mið af þessu.

„Til dæmis að þróa sjálfsmatsverkfæri fyrir áhættu og markmiðasetningu, halda áfram að byggja upp fræðslu á samfélagsmiðlum og gera sögur kvenna sem fjárfesta sýnilegri. Þá mætti líta til þess að þróa kynjamiðaða fjárfestingarkosti því margar konur vilja geta fjárfest með tilgangi, ekki eingöngu ávöxtun í huga,“ segir Katrín.

Til að jafna hlutföllin þannig að konur fari að fjárfesta í meira mæli og í jafnari hlutfalli við karlmanna, segir Katrín þó mikilvægast að hvetja konur til dáða.

Það þarf til dæmis ekki að byrja stórt. Upphæðir þurfa ekki að vera í milljónum eða hundruðum þúsunda króna. 

Það er hægt að byrja að fjárfesta með fimm þúsund krónum á mánuði. Sem hljómar kannski sem lítil upphæð en gæti verið risaskref fyrir unga konu.“


Tengdar fréttir

Boða alvöru breytingar í jafnréttismálum efnahags- og atvinnulífs

„Ísland hefur mikið fram að færa á sviði jafnréttismála og á okkur er hlustað á alþjóðavettvangi í þeim efnum,” segir Katrín Jakobsdóttir, stjórnarformaður nýs Rannsóknarseturs um jafnrétti í efnahags- og atvinnulífi og fyrrum forsætisráðherra.

Íslenskir kvenstjórnendur: Bjartsýnar en með áhyggjur af stríði

„Það er áberandi hversu bjartsýnar konur í stjórnendastöðum eru og hversu mikla trú þær hafa á eigin getu, þrátt fyrir að standa frammi fyrir miklum áskorunum,“ segir Margrét Pétursdóttir meðeigandi og endurskoðandi hjá KPMG meðal annars um niðurstöður alþjóðlegrar könnunar um viðhorf kvenleiðtoga um allan heim.

Fyrirsæta, frumkvöðull, fjárfestir: „Ég held ég sé ekki enn farin á gelgjuna!“

Það er ævintýralega gaman að tala við Ingunni Eiríksdóttur frumkvöðul, fjárfesti og fyrirsætu um lífshlaupið. Því um 15 ára gömul var hún farin að fljúga landanna á milli til að sitja fyrir sem fyrirsæta og áður en grunnskólagöngunni lauk hafði hvert tækifærið á eftir öðru bankað upp á dyrnar hjá henni.

„Fjárfestar eru bara venjulegt fólk“

„Ég viðurkenni að fyrst var ég mjög óöruggur. Velti fyrir mér hvort ég væri nógu góður. Hvort varan mín væri nógu góð. Fjárfestar virka einhvern veginn á mann eins og þeir hljóti að vera einhverjir svakalegir risar,“ segir Geoffrey Stekelenburg, stofnandi Neurotic sprotafyrirtækis sem starfrækt er í Grósku.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×