Íslenski boltinn

Jökull: Förum ekki hærra með svona frammi­stöðu

Sesselja Ósk Gunnarsdóttir skrifar
Jökull Elísabetarson, þjálfari Stjörnunnar
Jökull Elísabetarson, þjálfari Stjörnunnar Vísir/Diego

Stjarnan sigraði KR 2-1 á Meistaravöllum í 20. umferð Bestu deildar karla í dag. Stjarnan var hreint út sagt þó ekki sannfærandi með frammistöðu sinni í dag.

„Ég er ánægður með sigurinn og stigin. Frammistaðan er ekki það sem situr eftir hjá mér. Við getum ekki spilað mikið fleiri mínútur svona eins og í dag.“ sagði Jökull Elísabetarson, þjálfari Stjörnunnar, eftir sigur liðsins gegn KR í dag.

„KR voru betri meiri hluta leiksins í dag þó ekki allan tíman. Hluti af því liggur hjá mér og hluti hjá liðinu. Við þurfum saman að gera eitthvað betra og skemmtilegra næstu helgi.“ sagði Jökull.

„Taktískir hlutir og lágt orkustig er það sem við þurfum að skoða. Við leyfðum þeim að svæfa okkur. Þá sofnum við og hættum að pæla í hlaupunum þeirra. Þá komust þeir upp völlinn og í árása stöður.“ sagði Jökull.

Stjarnan er nú komið í 3. sæti með þrjá sigra á bakinu. Góðu gengi liðsins heldur áfram og er stefnan sett hærra en þriðja sæti.

„Við ætlum hærra, þriðja sætið er ekki nóg. Við getum þó ekki að verið að horfa allt of hátt eftir þennan leik. Við förum ekki hærra með svona frammistöðu. Fullur fókus hjá okkur núna að nýta vikuna vel og gíra okkur vel upp í næsta leik.“ sagði Jökull.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×