Íslenski boltinn

„Hefur komið með stál og styrk og þekkingu inn í varnar­leik Stjörnunnar“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Steven Caulker ásamt Jökli Elísabetarsyni, þjálfara Stjörnunnar. Caulker er spilandi aðstoðarmaður Jökuls.
Steven Caulker ásamt Jökli Elísabetarsyni, þjálfara Stjörnunnar. Caulker er spilandi aðstoðarmaður Jökuls. stjarnan

Ólafur Kristjánsson, sérfræðingur Stúkunnar, segir að Steven Caulker hafi haft góð áhrif á lið Stjörnunnar.

Caulker hefur spilað síðustu fjóra leiki Stjörnumanna en í þeim hafa þeir fengið tíu stig af tólf mögulegum. Stjarnan er sex stigum á eftir toppliði Vals í Bestu deild karla.

Stjarnan sigraði KR, 1-2, á mánudaginn og Ólafur hreifst af frammistöðu Caulkers í leiknum á Meistaravöllum.

„Mér finnst hafa gefið Stjörnuliðinu varnarleik með stóru vaffi. Hvernig get ég útskýrt það? Það var á köflum í gær [í fyrradag] að mér leið eins og KR væri ekkert endilega að fara að skora á Stjörnuna,“ sagði Ólafur í Stúkunni í gær.

„Það var ákveðin festa, stýring sem við höfum aðeins séð skorta á hjá Stjörnunni. Gummi [Guðmundur Kristjánsson] getur spilað sinn einstaklingsvarnarleik, dottið inn í samspilið með Caulker og það var þéttur bragur á varnarleiknum.“

Klippa: Stúkan - umræða um Steven Caulker

Ólafur segir að það henti Caulker vel þegar Stjarnan er frekar aftarlega á vellinum.

„Þegar þeir spila varnarleikinn eins og þeir spiluðu að megninu til í gær [í fyrradag], aftarlega þar sem hann getur verið að stuða upp í svæðið fyrir framan sig, vinna skallabolta, dekka og stýra, þá er hann öflugur. Hvernig hann er á stærra svæði að verjast, eigum við eftir að sjá; þegar þeir eru að fikra sig framar og fá á sig skyndisóknir,“ sagði Ólafur.

„En Caulker hefur komið með stál og styrk og þekkingu inn í varnarleik Stjörnunnar.“

Caulker hefur komið víða við á ferlinum og meðal annars leikið með Tottenham og Liverpool. Hann skoraði í sínum eina landsleik fyrir England 2012 en hefur frá 2022 leikið með landsliði Síerra Leóne.

Innslagið úr Stúkunni má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir

„Ekkert auðvelt fyrir þann sem fer í hans skó“

Patrick Pedersen, markahæsti leikmaður í sögu efstu deildar í fótbolta, spilar ekki meira með Val á þessari leiktíð eftir að hafa slitið hásin í úrslitaleik Mjólkurbikarsins. Stúkumenn ræddu um hvað Valsmenn gætu gert án Danans.

Uppgjör: KR-Stjarnan 1-2 | Örvar kom Stjörnunni inn í titilbaráttuna

Örvar Eggertsson skoraði bæði mörk Stjörnunnar í 2-1 sigri á KR í Vesturbænum í kvöld þegar liðið mættust í Bestu deild karla í fótbolta. Stjarnan er fyrir vikið aðeins þremur stigum á eftir toppliði Vals en þetta var þriðji deildarsigur Garðabæjarliðsins í röð og sá fjórði í síðustu fimm leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×