Handbolti

„Gott að ná í tvö stig strax í byrjun“

Sesselja Ósk Gunnarsdóttir skrifar
Ágúst Jóhannsson er mættur í karlaboltann og byrjar á sigri. Hér kemur hann skilaboðum áleiðis á leiknum í kvöld með leikrænum tilburðum.
Ágúst Jóhannsson er mættur í karlaboltann og byrjar á sigri. Hér kemur hann skilaboðum áleiðis á leiknum í kvöld með leikrænum tilburðum. vísir/Anton

Valur sigraði Stjörnuna 32-27 í opnunarleik Olís deildarinnar í Garðabæ í kvöld. Viktor Sigurðsson var öflugur fyrir Val í kvöld með níu mörk og nýi þjálfarinn, Ágúst Þór Jóhannsson, var ánægður með sigurinn.

„Mér fannst leikurinn kaflaskiptur hjá okkur, varnarleikurinn góður í fyrri hálfleik og Björgvin Páll var öflugur þar á bakvið allan leikinn. Þeir breyta svo í 7 á 6 og við vorum í smávegis basli með það. Við náðum að rúlla vel á öllum leikmönnum og gott að ná í tvö stig strax í byrjun,“ sagði Ágúst, nú þjálfari karlaliðs Vals, eftir sigur kvöldsins.

„Sumir leikmenn eru að koma seint inn útaf unglingalandsliðsverkefnum, þannig við erum ennþá að slípa til. Við vorum að spila við Stjörnulið þar sem vantaði einhverja leikmenn líkt og hjá okkur. Við berum virðingu fyrir þeim, þeir hafa verið að spila vel, eru bæði meistarar meistaranna og hafa verið að spila í Evrópu. Við undirbjuggum okkur fyrir erfiðan leik og ég er ánægður með að ná í tvö stig í fyrsta leik,“ sagði Ágúst.

„Við gáfum aðeins eftir í varnarleiknum í seinni hálfleik og missum aðeins tökin. Við vorum 10 mörkum yfir og gátum komist í 11 mörk í hraðaupphlaupi. Mér fannst við sjálfum okkur verstir og fara illa með dauðafæri. Heilt yfir er ég samt sem áður mjög sáttur og ánægður að ná í tvö punkta,“ sagði Ágúst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×