Íslenski boltinn

Sjáðu mörkin úr mettapi KR

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Valdimar Þór Ingimundarson skoraði þrennu á Meistaravöllum.
Valdimar Þór Ingimundarson skoraði þrennu á Meistaravöllum. vísir/diego

KR hefur aldrei tapað deildarleik jafn stórt og gegn Víkingi í gær. Víkingar skoruðu sjö mörk gegn engu og fóru með þrjú stig frá Meistaravöllum.

Frá því keppni á Íslandsmótinu hófst 1912 hefur KR þrisvar sinnum tapað leik 7-0. Gegn Fram 1922, FH 2003 og Víkingi í gær. Liðið hefur aldrei tapað heimaleik í deild jafn stórt og í gær.

Valdimar Þór Ingimundarson skoraði þrennu fyrir Víking sem skaust á toppinn með sigrinum í gær og bætti markatölu sína verulega. Óskar Borgþórsson, Nikolaj Hansen, Daníel Hafsteinsson og Oliver Ekroth voru einnig á skotskónum í leiknum í gær.

KR, sem hefur aðeins fengið eitt stig í síðustu þremur leikjum, er í 10. sæti Bestu deildarinnar og gæti verið í fallsæti eftir leiki dagsins, það er ef Afturelding vinnur ÍA með tveggja marka mun.

KA vann öruggan sigur á Vestra, 4-1. Hann dugði liðinu þó ekki til að komast í úrslitakeppni efri hlutans. 

Hallgrímur Mar Steingrímsson skoraði tvö mörk fyrir KA-menn og Hans Viktor Guðmundsson og Birnir Snær Ingason sitt hvort markið. Diego Montiel fyrir Vestramenn sem hafa ekki unnið í síðustu fjórum deildarleikjum sínum. KA hefur verið á góðri siglingu að undanförnu og aðeins tapað einum af síðustu sjö leikjum sínum.

FH og Fram skildu jöfn í Kaplakrika, 2-2. Sigurjón Rúnarsson skoraði jöfnunarmark Framara þegar tvær mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma.

Fram þarf að bíða eftir úrslitunum úr leik Breiðabliks og ÍBV til að vita hvort liðið kemst í efri úrslitakeppnina. Ef Eyjamenn vinna Blika fara Framarar í neðri úrslitakeppnina.

Fram komst yfir í leiknum í gær með marki Israels García Moreno en Björn Daníel Sverrisson og Bjarni Guðjón Brynjólfsson komu FH í bílstjórasætið með tveimur mörkum með þriggja mínútna millibili um miðjan seinni hálfleik. Þegar sjö mínútur voru til leiksloka var FH-ingurinn Jóhann Ægir Arnarsson rekinn af velli, mínútu eftir að hann kom inn á sem varamaður, og Framarar nýttu sér liðsmuninn til að jafna metin.


Tengdar fréttir

„Hrikalega sáttur með þetta“

Víkingur valtaði yfir KR-inga á Meistaravöllum í lokaumferð Bestu deildar karla. Fjögur mörk voru skoruð í fyrri hálfleik og þrjú í þeim seinni, lokatölur voru því 0-7. Með sigrinum tyllir Víkingur sér á topp deildarinnar, eða í bili allavega.

„Búnir að æfa það að setja Sigurjón upp í senterinn“

Rúnar Kristinsson, þjálfari Fram, var þokkalega sáttur með eitt stig á Kaplakrikavelli í dag. Áhorfendur fengu nóg fyrir peninginn enda bauð leikurinn upp á fjögur mörk, rautt spjald og dramatík á síðustu mínútum.

Uppgjörið: KA - Vestri 4-1 | Frábær sigur dugði ekki til

KA tók á móti Vestra í lokaumferð Bestu deildar karla áður en deildinni er skipt upp í efra og neðra umspil. Leikið var á Akureyri við fínar aðstæður og áttu bæði lið möguleika á því að komast í efra umspilið með sigri í dag og með hagstæðum úrslitum í öðrum leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×