Menning

Upp­selt á fimm­tíu sýningar á Línu Langsokk

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Birta Sólveig Söring Þórisdóttir leikur Línu en hún er frá bænum Selalæk rétt við Hellu í Rangárþingi ytra. Hún stendur sig frábærlega í sínu hlutverki.
Birta Sólveig Söring Þórisdóttir leikur Línu en hún er frá bænum Selalæk rétt við Hellu í Rangárþingi ytra. Hún stendur sig frábærlega í sínu hlutverki. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Það gekk mikið á í Þjóðleikhúsinu um helgina og mun ganga á næstu vikur og mánuði því Lína Langsokkur er mætt á svið leikhússins með sinn munnsöfnuð, stríðni og krafta. Uppselt er á 50 sýningar, sem þýðir að um 25 þúsund manns hafa tryggt sér miða á leikritið.

Leikritið um Línu Langsokk nýtur alltaf mikilla vinsælda þar sem það er sett upp en hér eru við að tala um aðalpersónu í bókaflokki rithöfundarins Astrid Lindgren. Lína er rauðhærð, freknótt, mjög fjörug og alveg óútreiknanleg í þeim uppátækjum, sem hún tekur upp á. Þá er hún mjög, mjög sterk. Leikritið um Línu var frumsýnt um helgina en leikritið er að fá mjög góðar viðtökur landsmanna ef marka má miðasöluna.

„Það er orðið uppselt á yfir fimmtíu sýningar og þar með erum við búin að selja yfir tuttugu og fimm þúsund miða og erum að bæta við aukasýningum alveg eins hratt og við mögulega getum til þess að tryggja að allir fái að upplifa þessa stórkostlegu gleði og hjartnæmu sýningu,” segir Magnús Geir Þórðarson, Þjóðleikhússtjóri.

Með hlutverk Línu fer Birta Sólveig Sören, sem útskrifaðist úr Leiklistarskólanum í fyrra og stendur hún sig frábærlega í sýningunni eins og allir aðrir leikarar.

„Það er orðið uppselt á yfir fimmtíu sýningar og þar með erum við búin að selja yfir tuttugu og fimm þúsund miða”, segir Magnús Geir, Þjóðleikhússtjóri.Magnús Hlynur Hreiðarsson

Leikstjóri sýningarinnar og danshöfundur eru í skýjunum með viðtökunum á Línu Langsokk.

„Það er náttúrulega fullt af fólki á sviðinu, sem er búið að leggja sig hart fram og búið að æfa hérna í margar vikur. Það eru 25 á sviðinu og svo erum við með 18 börn, sem skipta á milli sín, þar að segja níu og níu í hverri sýningu,” segir Agnes Wild, leikstjóri sýningarinnar.

Mikið er dansað í sýningunni og allskonar aðrar hreyfingar gerðar, sem er búið að æfa vel.

„Það getur ekki bara hver sem er hoppað inn í þetta, það þarf að hafa fyrir því að ná þessu, en mjög skemmtilegt og þau standa sig mjög vel,” segir Elma Rún Kristinsdóttir, danshöfundur sýningarinnar.

Þetta eru ótrúlega flottir krakkar, sem eru að taka þátt í sýningunni, eruð þið ekki sammála því?

„Já, þau eru náttúrulega búin að vera ótrúlega stórkostleg þessir krakkar. Þau eru á aldrinum 10 til 15 ára. Þau eru búin að leggja hart að sér að æfa sig aftur og aftur, þau eru stjörnurnar í sýningunni,” segir Agnes.

Agnes Wild, leikstjóri sýningarinnar (t.v.) og Elma Rún Kristinsdóttir, danshöfundur sýningarinnar.Magnús Hlynur Hreiðarsson

Á sýningum helgarinnar stóðu áhorfendur alltaf upp og klöppuðu og klöppuðum fyrir leikurum til að sýna þakklæti sitt fyrir frábæra sýningu.

Hægt er að fá mynd af sér með Línu fyrir sýningar og í hléi. Hún er reyndar á pappaspjaldi.Magnús Hlynur Hreiðarsson

Heimasíða Þjóðleikhússins






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.