Íslenski boltinn

Botnslagurinn færður

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Viktor Jónsson og félagar í ÍA geta unnið fjórða leikinn í röð þegar þeir taka á móti KR á laugardaginn.
Viktor Jónsson og félagar í ÍA geta unnið fjórða leikinn í röð þegar þeir taka á móti KR á laugardaginn. vísir/diego

Leikur ÍA og KR í úrslitakeppni neðri hluta Bestu deildar karla hefur verið færður yfir á laugardaginn 27. september.

Leikurinn átti að fara fram á sunnudaginn en hefst þess í stað klukkan 14:00 á laugardaginn. Á sama tíma verður flautað til leiks í viðureign Vestra og ÍBV á Ísafirði.

Annarri umferð í úrslitakeppni neðri hlutans lýkur svo með leik Aftureldingar og KA klukkan 16:00 á sunnudaginn.

ÍA komst upp úr fallsæti með 0-4 sigri á Vestra á laugardaginn var. Það var þriðji sigur liðsins í röð. Í þessum þremur leikjum hafa Skagamenn skorað samtals tíu mörk en aðeins fengið á sig eitt.

KR tapaði aftur á móti fyrir KA, 4-2, á Akureyri á sunnudaginn og er í ellefta og næstneðsta sæti deildarinnar með 24 stig, einu stigi og einu sæti á eftir ÍA. Afturelding er á botninum með 22 stig en Vestri er í 9. sætinu með 27 stig.

Eftir tvo sigra í röð, gegn Aftureldingu og Fram, hefur KR aðeins fengið eitt stig af tólf mögulegum í síðustu fjórum leikjum og fengið á sig samtals fjórtán mörk. Ekkert lið í Bestu deildinni hefur fengið á sig fleiri mörk en KR, eða 55.

Staðan í neðri hluta Bestu deildar karla.

KR vann ÍA, 5-0, á Þróttaravellinum í 4. umferð en Skagamenn sigruðu KR-inga í 15. umferð, 1-0.

Leikur ÍA og KR hefst klukkan 14:00 á laugardaginn og verður sýndur beint á Sýn Sport Ísland.


Tengdar fréttir

Rúnar Már og Amin missa af stór­leiknum upp á Skaga

Rúnar Már Sigurjónsson og Amic Cosic missa af fallbaráttuslag ÍA og KR í neðri hluta Bestu deildar karla í fótbolta. Alls voru sjö leikmenn úr Bestu deildinni úrskurðaðir í bann þegar Aga- og úrskurðarnefnd Knattspyrnusambands Íslands kom saman í ag.

Markatalan 10-1 eftir að Lárus Orri fann liðið sitt

Eftir að hafa unnið þrjá leiki í röð er ÍA komið upp úr fallsæti í Bestu deild karla. Lárus Orri Sigurðsson, þjálfari Skagamanna, hefur notað sama byrjunarliðið í öllum þessum þremur leikjum.

Upp­gjörið: KA - KR 4-2 | Akur­eyringar sendu Vestur­bæinga í fallsæti

KA svo gott sem gulltryggði veru sína í efstu deild með 4-2 sigri á KR á Greifavellinum í fyrstu umferð neðri hluta deildarinnar eftir tvískiptingu. KR aftur á móti í fallsæti þegar fjórar umferðir eru eftir og áhyggjur Vesturbæinga minnka ekki. KR leiddi 2-1 í hálfleik en KA menn sneru taflinu við í þeim síðari og unnu sanngjarnan sigur.

„Menn hafa gefið sig 110 prósent í verk­efnið“

ÍA sigraði Vestra 0-4 á Ísafirði í dag og heldur áfram markaveislu síðustu tveggja leikja liðsins. Þrjú mikilvæg stig fyrir ÍA í farteskið og hafa þeir náð að lyfta sér upp úr fallsæti í bili allavega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×