Íslenski boltinn

Utan vallar: Er FH að endur­taka stærstu mis­tök í sögu fé­lagsins?

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Heimir Guðjónsson hefur komið FH-skútunni á réttan kjöl.
Heimir Guðjónsson hefur komið FH-skútunni á réttan kjöl. vísir/ernir

FH gerði sín stærstu mistök í sögu félagsins þegar Heimir Guðjónsson var látinn fara árið 2017. Eru FH-ingar að endurtaka þau mistök?

Í fyrradag greindi FH frá því að Heimir yrði ekki áfram þjálfari liðsins þegar samningur hans rennur út eftir tímabilið.

Í viðtali við Vísi í gær sagði Davíð Þór Viðarsson, yfirmaður knattspyrnumála hjá FH, að félagið væri búið að finna eftirmann Heimis en hver það væri kæmi ekki í ljós fyrr en í lok þessa mánaðar. Davíð segist vera meðvitaður um áhættuna sem felst í því að framlengja ekki dvöl Heimis hjá FH en ákvörðunin hafi verið tekin með „hliðsjón af heildarstefnu og langtímamarkmiðum félagsins“ eins og hann orðaði það.

„Auðvitað er það þannig að allar ákvarðanir sem þú tekur eru réttar þar til að þær verða rangar. Það er alveg á hreinu að maður er að taka þessa ákvörðun vegna þess að manni þykir hún vera sú besta fyrir félagið en auðvitað er alltaf áhætta að gera breytingar. Okkur finnst þetta vera það rétta í þeirri stöðu sem við erum í núna, og með þau verkefni sem eru framundan,“ sagði Davíð um ákvörðunina að skipta um þjálfara hjá FH.

Heimir sneri aftur í FH eftir tímabilið 2022 þar sem liðið var næstum því fallið og fékk það verkefni að rétta kúrsinn hjá Fimleikafélaginu. Og það hefur honum tekist. Öll þrjú tímabil Heimis við stjórnvölinn hefur FH verið í efri úrslitakeppninni í Bestu deildinni og liðið hefur verið á góðri siglingu seinni hluta þessa tímabils.

Það blés ekki byrlega fyrir FH eftir fyrri umferðina í Bestu deildinni. Þá var liðið í ellefta og næstneðsta sæti með einungis ellefu stig. En síðan hefur leiðin legið upp á við. 

FH hefur aðeins tapað tveimur af síðustu þrettán leikjum sínum, endaði í 5. sæti Bestu deildarinnar fyrir skiptingu og er búið að ná í tvö stig í úrslitakeppninni, gegn sjóðheitu liði Stjörnunnar og Íslandsmeisturum Breiðabliks. FH-ingar hafa ekki tapað síðan 27. júlí, eða í síðustu átta deildarleikjum. FH er jafnframt eina taplausa liðið á heimavelli í Bestu deildinni og eftir afleitt gengi á útivöllum og miklar gervigrasófarir hafa FH-ingar sótt sjö stig í síðustu þremur útileikjum.

Einhverjum þætti þetta eflaust að góður árangur en greinilega ekki nógu góður því FH-ingar hafa ákveðið að breyta um kúrs. Friður sé með þeirri ákvörðun.

Kjartan Kári Halldórsson er stoðsendingahæsti leikmaður Bestu deildarinnar í sumar.vísir/anton

Heimir er einn af risunum í sögu FH; eitt af andlitum blómaskeiðs félagsins. Hann kom til FH um aldamótin og var fyrirliði þegar liðið varð Íslandsmeistari í fyrsta sinn 2004 og varði titilinn árið eftir með því að vinna sextán af átján deildarleikjum.

Heimir var svo aðstoðarmaður Ólafs Jóhannessonar í tvö tímabil, þar sem FH vann Íslands- og bikarmeistaratitil, og tók síðan við liðinu haustið 2007. Heimir stýrði FH í tíu tímabil. Á þeim tíma vann liðið fimm Íslandsmeistaratitla og einn bikarmeistaratitil. Samt var hann látinn fara eftir tímabilið 2017. Þá lenti FH í 3. sæti eftir fjórtán ár samfleytt í efstu tveimur sætum deildarinnar. Og FH-ingar unnu Íslandsmeistaratitilinn 2016 kannski ekki nógu sannfærandi.

Síðan leiðir FH og Heimis skildu 2017 hafa FH-ingar ekki verið í titilbaráttu og dýrðardagar félagsins eru að baki. Fyrir því eru ýmsar ástæður og það er kannski einföldun að segja að brotthvarf Heimis sé eingöngu um að kenna. En sagan hefur ekki dæmt ákvörðun FH að láta Heimi fara fyrir átta árum vel. Spurningin núna er hvernig sagan mun dæma ákvörðunina sem forráðamenn FH tóku á dögunum?

Sigurður Bjartur Hallsson hefur skorað tíu mörk í Bestu deildinni.vísir/anton

Það á eftir að koma í ljós en FH-ingar eru allavega að taka áhættu með ákvörðuninni eins og Davíð segir. Þeir vita allavega hvað þeir hafa í Heimi og verkin tala fyrir sig. Hann hefur komið með stöðugleika inn í félagið, yngt liðið og nokkrir leikmenn hafa blómstrað undir hans stjórn. Björn Daníel Sverrisson hefur verið frábær undanfarin þrjú ár, Kjartan Kári Halldórsson stimplað sig inn sem einn besti leikmaður deildarinnar, Sigurður Bjartur Hallsson hefur verið sjóðheitur í sumar og er í hópi markahæstu leikmanna deildarinnar og miðjumennirnir ungu, Baldur Kári Helgason og Tómas Orri Róbertsson, hafa orðið að góðum efstu deildar leikmönnum.

Fótboltinn sem FH spilar er kannski stundum stórkarlalegur, liðið gaf svakalega eftir seinni hluta síðasta tímabils og gengið utan Kaplakrika hefur ekki verið frábært. Það eru líka fimm ár síðan Heimir vann síðast titil og svo er hann kannski dottinn aðeins úr tísku. Í öllu tali um falleg orð eins og gildi, vegferð og stefnu passar Heimir kannski ekki inn. Enda segir Davíð í fyrrnefndu viðtali að FH sé að innleiða nýja knattspyrnustefnu sem verði útskýrð nánar þegar nýr þjálfari FH verður kynntur.

Heimir er ekki sá háfleygasti í viðtölum og talar ekki eins og hann sé nýútskrifaður af námskeiði í mannauðsstjórnun. En þegar kemur að því að þjálfa fótboltalið standa fáir honum framar og ná árangri, þótt að tími hans á hæsta tindi íslenska boltans sé kannski liðinn, eins og FH-inga.

FH byrjaði tímabilið illa en hefur verið á góðu skriði að undanförnu.vísir/anton

Hópurinn hjá FH er fínn en ekki frábær og árangurinn er á pari og kannski rétt rúmlega það. Fjármál FH hafa verið milli tannanna á fólki og félagið getur ekki lengur teygt sig upp í efstu hillu eftir leikmönnum. Það setur þeim vissar skorður og takmarkar möguleika þeirra á að klífa á þann stað í töflunni sem þá dreymir eflaust um. 

Oft hefur þó ekki vantað mikið upp á en samkvæmt tölfræðinni ætti liðið að vera með mun fleiri stig. FH-ingar eru núna með 32 stig en ættu að vera með 39,5 samkvæmt xG tölfræðinni umtöluðu. Í fyrra fékk FH 34 stig en „hefði“ átt að fá 44,3. Markvarslan hefur verið helsti Akkilesarhæll FH-inga undanfarin ár en árangurinn væri örugglega mun betri ef liðið verið með traustan markvörð sem vinnur fleiri stig en hann tapar.

FH veit hvað það hefur í Heimi en forráðamenn félagsins hafa ákveðið að taka skrefið út í óvissuna. Hvað bíður þar kemur í ljós en það er vonandi fyrir stuðningsmenn FH að ákvörðunin að skipta Heimi út reynist betur en fyrir átta árum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×