Íslenski boltinn

Gætu kvatt Bestu deildina án þjálfarans og lykil­manna

Sindri Sverrisson skrifar
Magnús Már Einarsson fékk rautt spjald gegn KR fyrir viðbrögð sín við mistökum dómarans í aðdraganda þess að KR komst í 2-1.
Magnús Már Einarsson fékk rautt spjald gegn KR fyrir viðbrögð sín við mistökum dómarans í aðdraganda þess að KR komst í 2-1. vísir/Diego

Afturelding spilar leik upp á líf og dauða að Varmá sunnudaginn 19. október, við Vestra í næstsíðustu umferð Bestu deildar karla í fótbolta. Þjálfarinn og tveir lykilmenn Aftureldingar verða þá í banni.

Sjö leikmenn og einn þjálfari voru í dag úrskurðaðir í eins leiks bann í Bestu deildinni. Bannið taka þeir út í næstsíðustu umferðinni, dagana 18.-20. október að loknu landsleikjahléi.

Leik Aftureldingar og Vestra hefur verið flýtt um klukkutíma og hefst hann klukkan 13. Þar verða heimamenn án þjálfarans Magnúsar Más Einarssonar, sem fékk rautt spjald í jafnteflinu við KR á laugardaginn, en einnig án tveggja öflugra leikmanna, þeirra Axels Óskars Andréssonar og Arons Jóhannssonar. Báðir hafa nú safnað sjö gulum spjöldum á leiktíðinni.

Ef Afturelding tapar leiknum við Vestra fellur liðið niður í Lengjudeildina, sama hvað gerist í lokaumferðinni.

Óli Valur Ómarsson missir af afar mikilvægum leik Breiðabliks við erkifjendurna og nýkrýnda Íslandsmeistara Víkings, þar sem Blikar freista þess að halda í vonina um Evrópusæti. Víkingar verða í þeim leik án Daníels Hafsteinssonar og Matthíasar Vilhjálmssonar sem líkt og Óli Valur hafa nú safnað fjórum áminningum.

KR-ingurinn Aron Þórður Albertsson er kominn með tíu áminningar í sumar og verður í banni gegn ÍBV, í leik sem gæti fellt KR ef liðið landar ekki sigri.

Markus Nakkim missir svo af leik Vals við FH, vegna fjögurra áminninga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×