Handbolti

Gæti misst af HM ef hún fær ekki vega­bréf fyrir ný­fædda dóttur sína

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Nora Mørk er ein skærasta stjarna norska handboltalandsliðsins.
Nora Mørk er ein skærasta stjarna norska handboltalandsliðsins. getty/Javier Borrego

Norska handboltakonan Nora Mørk gæti misst af heimsmeistaramótinu sem hefst í næsta mánuði af nokkuð sérkennilegri ástæðu.

Mørk eignaðist sitt fyrsta barn í maí. Kærasti hennar er sænski handboltamaðurinn Jerry Tollbring.

Mørk er byrjuð að spila á ný, komin aftur í landsliðið og stefnir á að spila á HM í Þýskalandi og Hollandi. En þangað fer hún ekki án dóttur sinnar sem hefur ekki enn fengið vegabréf.

„Vandamálið er að þau vilja fá frumrit af fæðingarvottorði. Faðirinn er sænskur, ég er norsk og hún fæddist í Danmörku. Maður fær ekki frumrit af fæðingarvottorði nema hún sé skírð,“ sagði Mørk við VG.

Hún segir ekki koma til greina að fara á HM án þess að vera með dóttur sína með sér.

„Ég fer ekki í burtu í þrjár vikur án sex mánaða gamallar stúlku. Það er of langur tími fyrir mig. Ef það kemur til greina að ég spili á HM er það þetta sem ræður úrslitum,“ sagði Mørk.

Ole Gustav Gjekstad, sem tók við norska landsliðinu af Þóri Hergeirssyni, vonast til að norsk yfirvöld stökkvi til og útvegi vegabréfið.

Heimsmeistaramótið hefst 26. nóvember og lýkur 14. desember. Noregur er í G-riðli ásamt Angóla, Suður-Kóreu og Kasakstan. Leikirnir í riðlinum fara fram í Trier í Þýskalandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×