Framúrskarandi fyrirtæki

Eru Framúr­skarandi fyrir­tæki og stolt af því

Starri Freyr Jónsson skrifar
Rúmlega 40 fyrirtæki hafa verið á lista Creditinfo yfir Framúrskarandi fyrirtæki frá upphafi og eru þau jafn fjölbreytt og þau eru mörg. Við ræðum stuttlega við fjóra framkvæmdastjóra þeirra. 
Rúmlega 40 fyrirtæki hafa verið á lista Creditinfo yfir Framúrskarandi fyrirtæki frá upphafi og eru þau jafn fjölbreytt og þau eru mörg. Við ræðum stuttlega við fjóra framkvæmdastjóra þeirra.  Mynd/Creditinfo.

Á lista ársins yfir Framúrskarandi fyrirtæki eru rúmlega 40 fyrirtæki sem hafa setið þar frá upphafi. Þau fyrirtæki eru jafn fjölbreytt og þau eru mörg og eiga kannski það helst sameiginlegt að búa yfir mikilli þrautseigju og útsjónarsemi í bland við gott og traust starfsfólk.

Við tókum hús á framkvæmdastjórum fjögurra fyrirtækja sem setið hafa á lista Framúrskarandi fyrirtækja frá upphafi.

Fyrirtækið Fossvélar er staðsett á Selfossi en það var stofnað árið 1971. Fossvélar hafa alla tíð tekið þátt í öflugri uppbyggingu innviða í samfélaginu okkar, síðast við nýbyggingu aðkomuvegar Hvammsvirkjunar.

Elísabet Edda Guðbjörnsdóttir, framkvæmdastjóri framkvæmdasviðs, segir það vera mikinn heiður að vera hluti af hópi framúrskarandi fyrirtækja ár eftir ár og starfsfólk Fossvéla sé reglulega stolt af því. „Þetta segir okkur að reksturinn sé á traustum grunni og að starfsfólkið leggi metnað í að standa sig vel. Fyrir okkur er þetta líka ákveðin viðurkenning á stöðugleika, samheldni og fagmennsku innan fyrirtækisins.“

Selfoss gaf okkur ekki bara Skítamóral og hamborgara með rauðkáli, súrum gúrkum og steiktum lauk. Fyrirtækið Fossvélar, sem var stofnað árið 1971 á Selfossi,  hefur verið á lista Creditinfo yfir Framúrskrandi fyrirtæki frá upphafi.

Að hafa verið á listanum frá upphafi staðfestir einnig að fyrirtækið sé áreiðanlegur samstarfsaðili sem stendur við skuldbindingar sínar og rekur fyrirtækið af ábyrgð bætir hún við. „Það hefur bæði áhrif út á við og ekki síst inn á við,“ segir Elísabet.


Steinull hf. frá Sauðárkróki er leiðandi framleiðandi steinullar á Íslandi og hefur starfað síðan 1985. Stefán Logi Haraldsson, framkvæmdarstjóri fyrirtækisins, segir það hafa mikla þýðingu fyrir eigendur, stjórnendur og starfsfólk að hafa verið á listanum frá upphafi. „Vera okkar á listanum er vitnisburður um að vel hafi tekist til við rekstur iðnfyrirtækis á óstöðugum markaði innanlands, með þrautseigju og sveigjanleika hjá stjórnendum og starfsfólki fyrirtækisins.“

Vera okkar á listanum er vitnisburður um að vel hafi tekist til við rekstur iðnfyrirtækis á óstöðugum markaði innanlands.

Aðspurður hvort veran á listanum frá upphafi hafi haft jákvæð áhrif á viðskiptavini og samskipti við birgja segir hann vonandi svo vera. „Þó teljum við að gott þjónustustig og áreiðanleiki í samskiptum við viðskiptavini og birgja hafi mest áhrif.“


TVG-Zimsen er alhliða flutningsmiðlun sem býður alla þjónustu tengda inn- og útflutningi. Fyrirtækið varð til við sameiningu Tollvörugeymslunnar hf. og Skipaafgreiðslu Jes Zimsen árið 1996 en sögu þessara fyrirtækja má rekja mun lengra aftur.

Elísa Dögg Björnsdóttir, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, segir það skipta miklu máli að hafa verið á listanum frá upphafi. „Þetta staðfestir stöðugleika og fagmennsku í rekstri og er sameiginlegt afrek starfsfólks okkar sem við erum mjög stolt af. Þetta er einnig hvatning til okkar allra að halda áfram á sömu braut. Um leið teljum við að viðurkenningin styrki traust og ímynd okkar. Hún gefur skýra mynd af áreiðanleika, sem skiptir miklu fyrir bæði viðskiptavini og birgja.“

Þetta staðfestir stöðugleika og fagmennsku í rekstri og er sameiginlegt afrek starfsfólks okkar sem við erum mjög stolt af.

Starfsfólk TVG-Zimsen hefur alltaf fjölmennt á viðburðinn sem haldinn er árlega í tengslum við viðurkenningu og verður engin breyting í ár að hennar sögn. „Já, við mætum alltaf og hlökkum til að taka á móti viðurkenningunni ásamt því að hitta viðskiptavini og samstarfsaðila sem hafa einnig hlotið sömu viðurkenningu.“


Trésmiðjan Rein var stofnuð á Húsavík árið 1963 af hjónum Stefáni Óskarssyni og Aðalbjörgu Gunnlaugsdóttur. Bæði eru þau enn virk í rekstri fyrirtækisins en sonur þeirra, Sigmar Stefánsson, er framkvæmdastjóri fyrirtækisins í dag. 

„Það hefur mikla þýðingu fyrir okkur að hafa verið á lista Framúrskarandi fyrirtækja frá upphafi,“ segir Sigmar. „Þetta er staðfesting á því að við höfum haldið stöðugleika í gegnum árin, og sýnir að vinnusemi okkar ber árangur. Starfsfólkið er stolt af þessum árangri og það hvetur okkur öll til að standa okkur enn betur. Við lítum á þetta sem viðurkenningu á sameiginlegu átaki og góðum anda í fyrirtækinu.“

Margir Íslendingar tengja hvalaskoðun og kvikmyndina Eurovision Song Contest: The Story of Fire Saga, við Húsavík. En Húsavík á líka fulltrúa á lista Creditinfo yfir fyrirtæki sem hafa verið Framúrskarandi fyrirtæki frá upphafi. Það er Trésmiðjan Rein sem var stofnuð árið 1963.Mynd/Vilhelm.

Hann segir stjórnendur og starfsfólk finna greinilega þau jákvæðu áhrif sem þessi langa vera hefur á viðskiptavini og birgja. „Viðskiptavinir treysta okkur enn betur þegar þeir sjá að við höfum verið á listanum svona lengi, og birgjar vita að þeir eru að vinna með traustu og ábyrgu fyrirtæki. Þetta hefur hjálpað til við að byggja upp langtímasambönd og styrkt trúverðugleika okkar í öllum samskiptum.“

Þessi grein er hluti af samstarfi Sýnar og Creditinfo um Framúrskarandi fyrirtæki






Fleiri fréttir

Sjá meira


×