Íslenski boltinn

Tölur úr Bestu: Hallgrímur Mar bjó til lang­flest færi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
KA-maðurinn Hallgrímur Mar Steingrímsson skoraði mikið í sumar en bjó líka mikið til fyrir liðsfélagana.
KA-maðurinn Hallgrímur Mar Steingrímsson skoraði mikið í sumar en bjó líka mikið til fyrir liðsfélagana. Vísir/Diego

KA-maðurinn Hallgrímur Mar Steingrímsson varð langefstur á listanum yfir sköpuð færi fyrir lið félaga í Bestu deild karla í fótbolta í sumar.

Opta-tölfræðiþjónustan heldur utan um tölfræði Bestu deildarinnar og tekur meðal annars saman hvaða leikmenn búa til skotfæri fyrir liðsfélagana.

Hallgrímur Mar bjó alls til 76 færi fyrir félaga sína í KA-liðinu en aðeins sex þeirra urðu þó að stoðsendingum. Það var því ekki Hallgrími að kenna að hann var ekki ofar á stoðsendingalistanum.

Hallgrímur var með nítján fleiri sköpuð færi en næsti maður sem var FH-ingurinn Kjartan Kári Halldórsson sem var sá sem gaf flestar stoðsendingar.

Kjartan Kári bjó til 57 færi eða einu færi fleira en Víkingurinn Gylfi Þór Sigurðsson (56) sem varð þriðji á listanum.

Fjórði var síðan Stjörnumaðurinn Benedikt V. Warén með 52 sköpuð færi og Víkingurinn Helgi Guðjónsson skapaði 48 færi. Aron Sigurðarson í KR og Tryggvi Hrafn Haraldsson í Val voru síðan jafnir í sjötta sæti með 47 sköpuð færi.

Kjartan Kári varð í efsta sæti á sama lista árið áður með 70 sköpuð færi eða fjórum sköpuðum færum á undan Gylfa Þór Sigurðssyni sem þá spilaði með Val.

Hallgrímur Mar var þá aðeins í fjórtánda sætinu með 41 skapað færi en hækkaði sig verulega á listanum í ár. Hallgrímur varð aftur á móti langefstur á þessum lista árið 2023 með 83 sköpuð færi en meira en þrjátíu sköpuðum færum á undan næsta manni.

Hann hefur því verið langefstur á þessum lista á tveimur af síðustu þremur tímabilum.

  • Flest sköpuð færi fyrir liðsfélagana í Bestu deildinni 2025:
  • 1. Hallgrímur Mar Steingrímsson, KA 76
  • 2. Kjartan Kári Halldórsson, FH 57
  • 3. Gylfi Þór Sigurðsson, Víkingi 56
  • 4. Benedikt V. Warén, Stjörnunni 52
  • 5. Helgi Guðjónsson, Víkingi 48
  • 6. Aron Sigurðarson, KR 47
  • 6. Tryggvi Hrafn Haraldsson, Val 47
  • 8. Jón Gísli Eyland Gíslason, ÍA 45
  • 9. Aron Elí Sævarsson, Aftureldingu 44
  • 10. Höskuldur Gunnlaugsson, Breiðabliki 43
  • 11. Böðvar Böðvarsson, FH 42
  • 12. Jónatan Ingi Jónsson, Val 41
  • 13. Haraldur Einar Ásgrímsson, Fram 39
  • 14. Rúnar Már Sigurjónsson, ÍA 37
  • 14. Simon Tibbling, Fram 37



Fleiri fréttir

Sjá meira


×