Viðskipti innlent

Sverrir Einar söðlar um og selur Þrastalund

Árni Sæberg skrifar
Þrastalundur er til sölu.
Þrastalundur er til sölu. Vísir/Vilhelm

Athafnamaðurinn Sverrir Einar Eiríksson hefur sett veitingastaðinn Þrastalund á sölu og stefnir á að hefja uppbyggingu annars staðar á Suðurlandi. Þá selur hann sex íbúða hús í Reykjanesbæ á sama tíma.

Sverrir Einar greinir frá þessu á Facebook. Þar segir hann Þrastalund einn þekktasta og sögulegasta áningastað landsins. Hann sé hannaður af Leifi Welding og fallega staðsettur við Sogið í hjarta Gullna hringsins, aðeins 45 mínútur frá Reykjavík.

Stjörnufastagestur fylgir með

Þrastalundur er vinsæll áfangastaður á Suðurlandi en þangað leggja ferðamenn og áhrifavaldar reglulega leið sína. Staðurinn hefur ítrekað ratað í fjölmiðla undanfarin ár, til að mynda vegna sýnileika á samfélagsmiðlum og verðlags. Þá hefur verið greint frá því að stjörnukokkurinn Gordon Ramsay venji komur sínar í Þrastalund.

„Erum svo yfir okkur þakklát fyrir allt saman. Að fá ár eftir ár heimsókn frá Gordon Ramsay og hans teymi. Hann er svo mikil fyrirmynd og mikill innblástur. Að fá að taka þátt í þessu og að fá að vera í kringum þá er ómetanlegt og verð ég því ævinlega þakklát og þeim sem sjá um þetta Takk enn og aftur fyrir okkur, takk fyrir traustið og takk fyrir komuna,“ sagði í færslu Þrastalundar á Instagram í sumar.

Selja til að ráðast í nýtt verkefni

Þá auglýsir Sverrir Einar einnig til sölu fasteignina Vatnsnesveg 5 í Reykjanesbæ, sem hann lýsir sem glæsilegri fasteign með sex íbúðum og bílskúrum í miðbæ Reykjanesbæjar. Þar sé möguleiki á hótelbyggingu og frekari þróun á vaxandi svæði nálægt flugvellinum.

„Við fjölskyldan erum að hefja spennandi uppbyggingu annars staðar á Suðurlandi og því höfum við ákveðið að selja þessar eignir,“ segir Sverrir Einar, inntur eftir ástæðu salanna tveggja.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×