Lífið

Lítið mál að trylla lýðinn kasólétt

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Tónlistarkonan Inki gerði sér lítið fyrir og tróð upp á Airwaves komin 39 vikur á leið.
Tónlistarkonan Inki gerði sér lítið fyrir og tróð upp á Airwaves komin 39 vikur á leið. Juliette Rowland

Það var rífandi stemning á Gauknum á Iceland Airwaves-hátíðinni síðastliðna helgi þegar tónlistarkonan Ingibjörg Friðriksdóttir, betur þekkt sem Inki, steig á svið, „aðeins“ 39 vikna ólétt. Hún naut sín í botn en ætlar þó ekki að gera lítið úr því að undirbúningurinn var þyngri en vanalega.

Inki er fædd árið 1989 og útskrifaðist úr tónsmíðum úr Listaháskólanum fyrir rúmum tólf árum. Hún hefur verið virk í tónlistarsenunni allar götur síðan. 

Á sviðinu með henni á Airwaves voru tveir af þekktari trommuleikurum landsins, Keli úr Agent Fresco og Hössi úr Godchilla/Plastic Gods.

Hössi og Keli tróðu upp með Inki.Juliette Rowland

„Og til að bæta við smá breskri fágun leikur með okkur vinur minn, Robin Pearkes, á elektróník og gítar,“ kynnti Inki á sviðinu. Blaðamaður ræddi við hana um þetta eftirminnilega gigg.

Hvernig var að koma fram á Airwaves og hvernig var stemningin?

Ég fann það strax og ég steig á svið að andrúmsloftið í salnum var frábært, og það var mikið af erlendum gestum sem var gaman að sjá.

Ég er heppin með vini, svo það var líka vel peppaður stuðningshópur mættur. 

Þau voru þó, auðvitað, með pott í gangi um í hvaða lagi ég myndi missa vatnið. 

Ég benti því öðrum tónleikagestum á að það væri hægt að henda inn veðmáli. Ég komst í gegnum tónleikana, svo ég hlýt að hafa unnið það veðmál.

Inki komst í gegnum tónleikana án þess að missa vatnið.Juliette Rowland

Hvernig gengur með meðgönguna og hvernig leið þér á sviðinu?

Mér fannst það ekki mikið mál að spila sjálfa tónleikana. Auðvitað var ég andstutt, en ég nýt mín vel á sviðinu. Litla skottan í bumbunni kann best við sig þegar ég er á mikilli hreyfingu, svo hún var alsæl.

Ég ætla samt ekki að gera lítið úr því að það er svakalega þungt að vera komin svona langt á leið og standa í öllum undirbúningnum. 

Það er mikið rót í kringum allar þungu græjurnar og þrátt fyrir að allir hafi verið vilja gerðir til að aðstoða mig og bera hluti þá er ég aldrei að fara að sitja og horfa á aðra vinna á meðan ég er með tærnar upp í loftið.

Á tónleikadeginum voru lappirnar orðnar vel bjúgaðar, svo ég komst ekki lengur í neina skó. Ég kom því fram berfætt. 

Ég tók eftir manni sem var að taka myndir af tánum á mér, líklega haldið að þessi tásusýning væri listrænn gjörningur, þegar þetta var í raun ekkert nema ill nauðsyn.

Inki var á tánum af illri nauðsyn, ekki sem hluta af gjörningi.Juliette Rowland

Heldurðu að barnið feti tónlistarbrautina eins og móðirin?

Ég hafði smá áhyggjur þegar við byrjuðum æfingaferlið að tveir trommuleikarar og þungur bassi gætu sett mig af stað. En svo var ekki. 

Ef eitthvað, þá róast hún við hávaðann. Líklega er þetta lítill þungarokkari, pabbinn yrði allavega ekki ósáttur við það.

Litla krílið nýtur sín vel í hávaða og fjöri.Juliette Rowland

Á Airwaves bauðstu upp á mjög sérstakt verkefni, Póstkort frá Iceland Airwaves. Gætir þú útskýrt það?

Mig langaði til að þessir tónleikar yrðu einstakir fyrir þá sem myndu mæta, svo ég var lengi að velta fyrir mér hvað ég gæti gert sem yrði eftirminnilegt og öðruvísi.

Ég er að gefa út plötu sem heitir Locally Grown, þar sem öll lögin byggja á einstökum mannlegum samskiptum og því hvernig hversdagsleg augnablik geta orðið áhrifamikil. Allt frá því hvernig spákona ráðlagði mér að hætta að pæla í framtíðinni, til óvæntra samtala við hverfisfyllibittu.

Hvernig við deilum augnablikum og tengjumst var kveikjan að hugmyndinni Póstkort frá Iceland Airwaves. Ég bauð gestum að skrifa sérútbúin póstkort frá tónleikunum og ég sendi þau síðan fyrir þau.

Þetta var tækifæri til að deila þessari stund á annan hátt en í gegnum samfélagsmiðla. Að fá handskrifað póstkort frá vini er eitthvað svo miklu persónulegra en að skrolla í gegnum samfélagsmiðla.

Póstkort from Iceland Airwaves var skemmtilegt verkefni.Juliette Rowland

Hvað er á döfinni?

Ég hitaði upp fyrir Airwaves með því að gefa út fyrstu fimm lögin af nýju plötunni minni. Það síðasta, To Build a Home, kom út rétt fyrir hátíð og var lokalag tónleikanna.

Ég byrjaði að gefa út lögin í september, en eftir að það fyrsta, Islander, kom út hafði samband við mig amerískur umboðsmaður sem fylgist náið með íslensku tónlistarsenunni. 

Hann er núna að vinna með mér að útgáfunni, mætti á Airwaves og var að „bransast“ fyrir mína hönd. Ég er mjög forvitin að sjá hvað kemur út úr því.

En fyrst og fremst er það á döfinni að fæða barn á næstu dögum og ég hlakka mjög mikið til að kynnast henni. 

Hún er mikill spriklari og ég finn það á mér að hún verður ótrúlega skemmtilegur karakter.

Það var mikið stuð og stemning á tónleikunum.Juliette Rowland





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.