Handbolti

Lið Blæs rak þjálfarann og íþrótta­stjórann

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Raúl Alonso stoppaði stutt við hjá Leipzig.
Raúl Alonso stoppaði stutt við hjá Leipzig. getty/Hendrik Schmidt

Leipzig, botnlið þýsku úrvalsdeildarinnar í handbolta, hefur skipt um þjálfara eftir afleita byrjun á tímabilinu.

Raúl Alonso var ráðinn þjálfari Leipzig í sumar en hann tók við starfinu af Rúnari Sigtryggssyni.

Alonso entist ekki lengi í starfi því hann hefur verið rekinn frá Leipzig.

Í stað Alonsos hefur félagið ráðið Frank Carstens. Þessi 54 ára Þjóðverji var síðast við stjórnvölinn hjá Wetzlar. Þar áður þjálfaði hann Minden í átta ár. Carstens stýrði einnig Magdeburg um þriggja ára skeið.

Alonso var ekki sá eini sem missti starfið sitt hjá Leipzig því íþróttastjórinn Bastian Roscheck var einnig látinn fara.

Blær Hinriksson leikur með Leipzig og er markahæsti leikmaður liðsins í þýsku úrvalsdeildinni. Hann hefur skorað 57 mörk og er í 20. sæti yfir markahæstu leikmenn deildarinnar.

Leipzig rekur lestina í þýsku deildinni með einungis tvö stig eftir tólf leiki. Liðið er það eina í deildinni sem á enn eftir að vinna leik í vetur.

Næsti leikur Leipzig er gegn strákunum hans Guðjóns Vals Sigurðssonar í Gummersbach á laugardaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×