Handbolti

Ó­trú­legur viðsnúningur Íslandsbananna gegn Spáni

Valur Páll Eiríksson skrifar
Serbar gerðu frábærlega á lokakafla leiksins og unnu sterkan sigur.
Serbar gerðu frábærlega á lokakafla leiksins og unnu sterkan sigur. Federico Gambarini/picture alliance via Getty Images

Serbía vann 31-29 sigur á Spáni í milliriðli íslenska landsliðsins í Dortmund á HM kvenna í handbolta. Spánn leiddi með sex marka mun um miðjan síðari hálfleik en ótrúlegur viðsnúningur setti Serba í lykilstöðu í riðlinum.

Serbar lögðu íslenska liðið með minnsta mun á föstudaginn var. Þökk sé þeim sigri tóku þær serbnesku tvö stig með sér í milliriðilinn og var jafnt Spáni, Færeyjum og Svartfellingum fyrir leik dagsins.

Keppst var því um að jafna Þjóðverja að stigum í efsta sæti riðilsins. Úr var jafn leikur þar sem þær spænsku voru þó skrefi á undan frá upphafi til enda.

Munurinn var tvö mörk lengst af og eftir drjúga markaskorun liðanna var staðan 19-17 fyrir Spán í hálfleik.

Þær spænsku byrjuðu síðari hálfleikinn betur. Þær skoruðu fyrstu fjögur mörk hálfleiksins til að komast í 23-17 og gerðu þá gott sem út um leikinn.

Það var hreint ekki svo. Serbar lokuðu vörninni og náðu 8-1 kafla til að snúa stöðunni úr 26-20 fyrir Spán í 28-27 sér í vil.

Eftir það tóku við æsispennandi lokamínútur en þegar 30 sekúndur voru eftir náðu þær serbnesku tveggja marka forystu í fyrsta sinn í leiknum, 31-29, sem urðu lokatölur eftir hreint ótrúlegan viðsnúning.

Serbar eru því með fjögur stig á toppi riðilsins, líkt og Þjóðverjar. Spánn, Svartfjallaland og Færeyjar eru með tvö en Ísland án stiga.

Ísland og Svartfjallaland eigast við í riðlinum klukkan 17:00. Þeim leik verður lýst beint hér á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×