Umræðan

Fram­vinda fimm kerfislægra breytinga gæti um­breytt heims­hag­kerfinu

Dambisa Moyo skrifar

Hægari vöxtur, stigmagnandi viðskiptastríð, aukið fjármagnsflæði yfir landamæri og vaxandi þrýstingur vegna fólksflutninga hafa verið áberandi í fréttum – og það af góðri ástæðu. Saman geta þessir kraftar grafið undan fjölþjóða samvinnu og flýtt fyrir uppgangi nýmarkaðsríkja eins og BRICS+ hópsins sem mun leggja grunn að afgerandi endurskipulagningu á heimshagkerfinu.

En kerfislæg þróun í fimm öðrum þáttum gæti reynst jafn áhrifarík, ef ekki meiri.

Sá fyrsti eru lýðfræðilegar breytingar. Þótt mannfjöldaspáin geri ráð fyrir hámarki í 10,3 milljörðum íbúa jarðar um 2080, skyggir sú tala á öflugar undirliggjandi breytingar. Íbúafjöldinn er að eldast hratt og þar sem framfærsluhlutfallið (hlutfall vinnandi af eftirlaunaþegum) stefnir í 3,9 árið 2050 má gera ráð fyrir vaxandi álagi á lífeyriskerfi og opinber fjármál.

Þróunin er vissulega mjög mismunandi eftir löndum. Indland hefur tekið fram úr Kína sem fjölmennasta land heims, en búist er við að íbúafjöldi Kína – nú um 1,4 milljarðar – muni lækka niður fyrir 750 milljónir fyrir árið 2100. Íbúafjölda Ítalíu er spáð falli úr 60 milljónum í 27 milljónir á sama tímabili og íbúafjöldi Japans gæti hrapað úr 128 milljónum í 53 milljónir. Áætlað er hins vegar að íbúafjöldi Nígeríu þrefaldist í 791 milljón, sem myndi gera það að næstfjölmennasta landi heims á eftir Indlandi.

Indland kann að vera fjölmennara en Kína, en þjóðartekjur á mann í Kína eru næstum fimm sinnum hærri en á Indlandi sem bendir til þess að fólksfjölgun færist í átt að hagkerfum með lægri tekjur sem neyta verðminni vara.

Efnahagslegar og landfræðilegar afleiðingar gætu orðið djúpstæðar. Búist er við að hundruð milljóna íbúa þróunarlandanna muni koma inn á vinnumarkaðinn næsta aldarfjórðunginn, rétt eins og mörg þróuð hagkerfi standa frammi fyrir langtíma lýðfræðilegri fækkun. Vaxandi bilið mun auka vinnuafls- og efnahagsþrýsting og kynda undir fólksflutningum á þeim tíma þegar hnattræn kerfi eru þegar að glíma við metfjölda fólksflutninga.

Þessar lýðfræðilegu breytingar munu einnig hafa áhrif neyslumynstur á heimsvísu, sérstaklega þegar kemur að orku og matvælum. Indland kann að vera fjölmennara en Kína, en þjóðartekjur á mann í Kína eru næstum fimm sinnum hærri en á Indlandi sem bendir til þess að fólksfjölgun færist í átt að hagkerfum með lægri tekjur sem neyta verðminni vara.

Önnur kerfislæg þróun er röskun á vinnumarkaði sem knúin er áfram af gervigreind. Þótt ofurhringrás gervigreindar auki mögulega framleiðni og vöxt, gæti hún einnig fært milljónir starfsmanna úr störfum, sérstaklega þá sem vinna hefðbundin störf sem fela í sér endurteknar aðgerðir. Á meðan spár hagfræðinga eru mismunandi, þá benda jafnvel varfærnar áætlanir til þess að atvinnulaus lágstétt myndist, með alvarlegum félagslegum og þjóðhagslegum afleiðingum.

Þar að auki, ef vöxtur sem knúinn er af gervigreind umbunar fjármagni óhóflega umfram vinnuafl, mun ójöfnuður aukast og stjórnvöld lenda undir þrýstingi til að grípa inn í. Þar af leiðandi gætu fyrirtæki, sérstaklega tæknigeirinn, staðið frammi fyrir hærri skattbyrði til að fjármagna velferðarkerfi, þar á meðal almennar grunntekjur.

Ólíkt Evrópusambandinu hvetur reglugerðarumhverfi Bandaríkjanna til meiri áhættusækni, bæði hjá almennum- og stofnanafjárfestum.

Þriðja kerfislæga þróunin felur í sér takmarkanir á náttúruauðlindum, sem hamlar hagvexti og eykur á geópólitíska togstreitu. Til að mynda þá er kopar þegar af skornum skammti og Alþjóðaorkumálastofnunin varar við 30% skorti fyrir árið 2035 án verulegra fjárfestinga í nýjum námuverkefnum. Önnur mikilvæg aðföng eins og lithíum, nikkel og kóbalt eru undir svipuðum framboðþrýstingi, sem eykur hættuna á alvarlegum skorti sem gæti lamað framleiðslu á rafhlöðum og tafið orkuskiptin.

Vatnsskortur er önnur stór auðlindatakmörkun. Um það bil 25% af alþjóðlegum landbúnaði fer fram á svæðum þar sem vatnsskortur er mikill, sem gerir fæðukeðjur viðkvæmari fyrir skorti og verðhækkunum. Og þar sem vatn er einnig nauðsynlegt fyrir kælingu gagnavera og framleiðslu hálfleiðara, mun hröð notkun gervigreindar setja enn frekari pressu á framboðið.

Í fjórða lagi hefur áhættusækni aukist verulega í Bandaríkjunum, sem ýtir undir nýja bylgju fjárfestinga og spákaupmennsku. Ólíkt Evrópusambandinu hvetur reglugerðarumhverfi Bandaríkjanna til meiri áhættusækni, bæði hjá almennum- og stofnanafjárfestum. Fyrir vikið eru hlutabréfamarkaðir enn nálægt sögulegum hágildum, þar sem verð á móti hagnaði S&P 500 vísitölunnar er um 30 falt – langt yfir sögulegu meðaltali.

Fjárfestar ausa fjármagni í framtakssjóði, óskráð lán, vísisjóði, rafmyntir og gull (sem hefur hækkað um meira en 50% á síðasta ári).

Flæðið í skammtíma spákaupmennsku mun ólíklega hægja á sér, þar sem spáð er að „barnasprengju“ kynslóðin muni færa um 100 billjónir Bandaríkjadala yfir til yngri kynslóða fyrir árið 2048. Þessi mikli kynslóðaflutningur af fjármagni mun dæla enn frekari fjármagni inn á fjármálamarkaði og blása upp eignaverð, jafnvel þótt hátt sparnaðarstig þrýsti raunvöxtum niður.

Innstreymi nýs fjármagns hefur í för með sér verulega áhættu. Skuldsett veðmál fara í auknum mæli í gegnum skuggabankakerfið, fjarri eftirliti eftirlitsaðila, sem skapar veikleika sem gætu smitast út í raunhagkerfið.

Flutningur lánastarfsemi frá hefðbundnum bönkum veikir skilvirkni peningastefnunnar. Jafnvel þótt Seðlabanki Bandaríkjanna lækki vexti er hætt við að þær aðgerðir nái aldrei til lántakenda, sem takmarkar getu peningastefnunnar við að örva vöxt.

Án dramatískra breytinga er hætta á að álfan missi af ofurhringrás gervigreindar og verði tækninýlenda frekar en drifkraftur nýsköpunar.

Að lokum er aukin áhættufælni í Bretlandi og Evrópu orðin að kerfislægu vandamáli. Í áratugi hafa vaxtarhorfur Evrópu verið undir þrýstingi skrifræðis, ströngu regluverki og sundurleitum fjármagnsmörkuðum. Tölurnar tala sínu máli: áhættufjárfesting í Bandaríkjunum eru yfirleitt 8-10 sinnum hærri en í ESB og um 70% heimila í evrusvæðinu segjast ekki vera tilbúin til að taka fjárhagslega áhættu, samanborið við færri en 40% Bandaríkjamanna.

Hlutabréfamarkaðurinn í London endurspeglar dýpt þessara fjármálaveikleika. Á fyrri helmingi ársins 2025 söfnuðu fyrirtæki aðeins 160 milljónum punda (214 milljónum Bandaríkjadala) í frumútboðum hjá LSE – sem er 30 ára lágmark – og setti markaðinn af lista 20 stærstu hlutabréfamarkaða heims fyrir frumútboð. Breskir lífeyrissjóðir hafa einnig minnkað hlutfall sitt af innlendum hlutabréfum úr 53% í 6% á síðustu 25 árum, sem skerðir fjármagnsforða breskra fyrirtækja.

Þetta er ekki bara fjárhagslegt vandamál, þar sem dvínandi efnahagslegt hlutverk Evrópu grefur undan samkeppnishæfni álfunnar til langs tíma. Án dramatískra breytinga er hætta á að álfan missi af ofurhringrás gervigreindar og verði tækninýlenda frekar en drifkraftur nýsköpunar.

Kerfislæg þróun ofangreindra málefna gæti gjörbreytt heimshagkerfinu – breytt viðskiptaleiðum, flæði fjármagns, dreifingu og verðlagningu á mikilvægum matvælum og steinefnum og knúið stjórnvöld til að endurhugsa aðfangastjórnun, fjármagnsskipan og fjárfestingu yfir landamæri.

Þeir sem undirbúa sig best verða þeir sem bera kennsl á áhættuna snemma og aðlaga sig í samræmi við það.


Lausleg þýðing á grein eftir Dambisa Moyo sem birtist á vef Project Syndicate mánudaginn 15. desember. 

Höfundur er alþjóðahagfræðingur og situr í lávarðadeild breska þingsins. Hún er höfundur meðal annars bókanna How Boards Work: And How They Can Work Better in a Chaotic World, Edge of Chaos: Why Democracy Is Failing to Deliver Economic Growth – and How to Fix It og Dead Aid: Why Aid Makes Things Worse and How There Is Another Way for Africa.






×