Veður

Frost og hægur vindur

Lovísa Arnardóttir skrifar
Eflaust prýðisdagur til að fara með ruslið þurfi einhverjir að gera það.
Eflaust prýðisdagur til að fara með ruslið þurfi einhverjir að gera það. Vísir/Vilhelm

Hæð yfir Grænlandi og lægðasvæði vestur af Skotlandi beina til okkar norðaustan- og austanátt. Í hugleiðingum veðurfræðings segir að þannig eigi að vera fremur hægur vindur í dag en strekkingur við suðausturströndina.

Þá geti orðið skýjað með köflum um landið austanvert og einhver smáél á stangli, en bjartara yfir vestanlands. Á Vestfjörðum megi þó búast við éljagangi fram undir kvöld, og nú í morgunsárið sjáist éljabakkar á sveimi við suðvesturströndina. Frost 0 til 12 stig, kaldast inn til landsins.

Samkvæmt hugleiðingum verður áfram svöl norðaustanátt á morgun og það bætir smám saman í vind. Dálítil él norðan- og austantil, en yfirleitt léttskýjað um landið suðvestanvert.

Á mánudag er svo útlit fyrir ákveðna norðanátt með éljagangi um landið norðanvert. Nánar um veðurspá á vef Veðurstofunnar. 

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á sunnudag:

Norðaustan og austan 5-13 m/s, en 13-18 við suðausturströndina. Víða dálítil él, en bjart að mestu um landið suðvestanvert. Frost 0 til 12 stig, kaldast inn til landsins. Bætir heldur í vind um kvöldið.

Á mánudag:

Norðan 8-15, en 15-23 á Suðausturlandi og Austfjörðum. Víða él, en yfirleitt þurrt sunnanlands. Frost 0 til 8 stig.

Á þriðjudag:

Minnkandi norðan- og norðvestanátt og bjart með köflum, en snjókoma austanlands fram eftir degi. Herðir á frosti.

Á miðvikudag:

Norðaustlæg eða breytileg átt og bjart með köflum, en dálítil él suðaustantil. Kalt í veðri.

Á fimmtudag:

Norðaustan- og austanátt og hlýnar með snjókomu eða slyddu, en úrkomulítið á Suðvestur- og Vesturlandi.

Á föstudag:

Norðlæg átt og él, en þurrt að mestu sunnan heiða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×