Handbolti

„Of margir lykilleikmenn sem fundu sig ekki í dag“

Hinrik Wöhler skrifar
Framarar komust hvorki lönd né strönd gegn öflugri vörn Vals.
Framarar komust hvorki lönd né strönd gegn öflugri vörn Vals. Vísir/Ernir Eyjólfsson

Haraldur Þorvarðarson, þjálfari Fram, átti fá svör þegar topplið deildarinnar, Valur, rúllaði yfir Fram í Olís-deild kvenna í dag. Leiknum lauk með 11 marka sigri Vals og segir Haraldur að gæðamunurinn á liðunum hafi verið augljós á öllum sviðum leiksins.

„Þetta var á mörgum sviðum, við vorum undir á öllum pörtum í þessum leik. Hvort sem það var baráttan eða gæðin, vantaði töluvert upp á til þess að eiga break á móti liði ársins,“ sagði Haraldur skömmu eftir leikinn í Lambhagahöllinni.

Framarar áttu ágætis kafla í byrjun seinni hálfleiks en það varð skammvinnt, því Valskonur sigldu fljótt fram úr að nýju.

„Vörnin lagaðist aðeins, þegar við breyttum og plúsuðum á Lovísu [Thompson] og þær áttu í erfiðleikum með að skora, allavega í korter í seinni hálfleik. Svo misstum við það líka niður og þetta endaði í ellefu mörkum,“ sagði Haraldur.

Haraldur segir að varnarleikurinn hafi verið öflugur í byrjun seinni hálfleiks en að liðið hafi ekki náð að fylgja því eftir með mörkum. Framarar áttu í kjölfarið í miklu basli með að finna glufur á sterkri vörn Vals í dag og skoruðu aðeins 19 mörk.

Valur hóf leikinn af krafti og var með níu marka forskot í hálfleik.Vísir/Ernir Eyjólfsson

„Á meðan vörnin var að halda í byrjun seinni hálfleiks áttum við í miklum erfiðleikum með að skora. Fengum fullt af sóknum til þess að minnka þetta niður í fimm mörk en skoruðum ekki.“

„Þau fáu skipti sem við náðum að vinna einn á einn stöðuna þá varði Hafdís [Renötudóttir] það bara. Það var við ramman reip að etja í dag.“

Þjálfarinn gerir meiri kröfur til reynslumeiri leikmanna og var ekki sáttur við framlag þeirra í leiknum í dag.

Gerir meiri kröfur til reynslumeiri leikmanna

„Við getum gert betur en þetta og það voru of margir lykilleikmenn sem fundu sig ekki í dag. Það munaði um minna, þessir svokölluðu lykilmenn þurfa að eiga betri leiki en þetta.“

„Við erum með ungt lið og þeir eiga að draga vagninn fyrir þá ungu, þessir reynslumeiri leikmenn og landsliðsmenn. Það vantaði upp á þetta í dag,“ sagði Haraldur að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×