Handbolti

Strákarnir hans Dags fengu skell

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dagur Sigurðsson var ekki sáttur á hliðarlínunni í kvöld enda fengu hans menn skell.
Dagur Sigurðsson var ekki sáttur á hliðarlínunni í kvöld enda fengu hans menn skell. EPA/Andreas Hillergren

Svíar tryggðu sér sigurinn í E-riðlinum á Evrópumótinu í handbolta eftir átta marka sigur á Króatíu í kvöld, 33-25.  Strákarnir hans Dags Sigurðssonar fara því stigalausir áfram í milliriðil.

Svíar voru sterkari frá upphafi leiks, komust í 2-0, 3-1 og 11-8 og leiddu með fjórum mörkum í hálfleik, 17-13.

Zvonimir Srna skoraði sex af mörkum Króata í fyrri hálfleiknum en það dugði ekki til, ekki frekar en að Dominik Kuzmanović var að verja ágætlega.

Sænska vélin mallaði vel og margir voru að skila til liðsins. Andreas Palicka gerði hlutina enn erfiðari með því að verja vel í seinni hálfleiknum. Hann var valinn maður leiksins.

Ekki fór þetta vel af stað í seinni hálfleik þegar Svíar skoruðu tvö fyrstu mörkin og komust sex mörkum yfir, 19-13.

Eftir það var nokkuð ljóst hvernig þessi leikur færi og sigur Svíanna varð á endanum afar sannfærandi.

Svíar mæta því með tvö stig í milliriðilinn alveg eins og Ísland og Slóvenía. Króatar byrja stigalausir eins og Svisslendingar og Ungverjar.

Sænska liðið er á heimavelli, hefur unnið alla þrjá leiki sína á mótinu með fimm mörkum eða meira og er til alls líklegt í keppninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×