Handbolti

Al­freð þurfti að breyta plönum hratt fyrir stund hefndar

Sindri Sverrisson skrifar
Alfreð Gíslason man vel eftir tapinu sára gegn Portúgal á HM fyrir ári síðan.
Alfreð Gíslason man vel eftir tapinu sára gegn Portúgal á HM fyrir ári síðan. Getty/Sina Schuldt

Alfreð Gíslason og hans menn í þýska landsliðinu hefja í dag leik í hinum sannkallaða dauðamilliriðli á EM í handbolta, með leik við Portúgal. Við því bjóst Alfreð alls ekki.

Með sigri á Spáni á mánudaginn endaði Þýskaland efst í A-riðli og það þýddi að liðið mætir efsta liði B-riðils í dag, klukkan 14:30.

Eins og allir aðrir reiknaði Alfreð með að það lið yrði Danmörk en heims- og Ólympíumeistararnir töpuðu óvænt fyrir Portúgal og koma stigalausir inn í milliriðilinn.

Þýskaland mætir því Portúgal í dag og hefur þar harma að hefna því Portúgal, með Costa-bræðurna Francisco og Martim fremsta í flokki, sló út Þýskaland í framlengdum leik í 8-liða úrslitum HM fyrir ári síðan.

„Það var mjög svekkjandi hvernig við töpuðum fyrir þeim á síðasta ári. Við fengum fullt af tækifærum til að vinna leikinn. Eftir leik sagði fólk að við gætum nú ekki hafa tapað fyrir Portúgal því það væri ekki frábært lið. En eftir sigur þeirra á Danmörku þá veit allur heimurinn hvað þeir geta,“ sagði Alfreð á Handball.net.

„Kostaði nokkurra klukkutíma vinnu“

Alfreð segist hafa þurft að vinna smá aukavinnu þegar ljóst varð að leikið yrði við Portúgal í dag en ekki Danmörk.

„Við höfðum búist við að Danmörk yrði næsti mótherji okkar enda höfðu Danir ekki tapað á heimavelli óralengi. Það að það skuli í staðinn vera Portúgalar kostaði mig nokkurra klukkutíma vinnu. En við höfum spilað á móti öllum þessum andstæðingum áður hvort sem er,“ sagði Alfreð og bætti við að þýska liðið ætti auk þess að huga að eigin styrkleikum frekar en kostum og göllum mótherjanna.

Eftir leikinn við Portúgal í dag munu Þjóðverjar spila við Noreg á laugardaginn, Dani næsta mánudagskvöld og svo við Frakkland næsta miðvikudag, svo fram undan er rosaleg dagskrá hjá Alfreð og hans mönnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×