Handbolti

Mis­mælti sig harka­lega í beinni út­sendingu

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Stine Dahmke segist ekki hafa svitnað svona mikið síðan í úrslitaleik Ólympíuleikanna 2024.
Stine Dahmke segist ekki hafa svitnað svona mikið síðan í úrslitaleik Ólympíuleikanna 2024.

Hin norska Stine Dahmke, ein sigursælasta handboltakona sögunnar, og eiginkona þýska landsliðsmannsins Rune Dahmke, mismælti sig illa þegar hún lagði sitt sérfræðimat á leik Þýskalands og Noregs sem fer fram í kvöld.

Stine Dahmke lagði skóna á hilluna árið 2024 og er að þreyta frumraun sína í sjónvarpi á EM 2026 og var í settinu í gærkvöldi þegar hitað var upp fyrir leik Noregs og Þýskalands.

Þar ruglaðist hún óvart á stöðu bakvarðar, sem oft er kölluð tvistur, og klósettferðinni sem kölluð er númer tvö.

„Hún ætlaði að segja að Sander Sagosen myndi halda tvistinum þeirra uppteknum en það kom eitthvað allt annað út“ útskýrði eiginmaður hennar, Rune Dahmke, í samtali við Bild.

Sérfræðingarnir sem voru með henni í settinu áttu erfitt með halda í sér hlátrinum og á endanum þurfti bara að skipta yfir í auglýsingar.

„Ég hef ekki svitnað svona mikið síðan í úrslitaleik Ólympíuleikanna 2024 [síðasta leiknum á ferlinum]“ sagði Stine Dahmke við Bild.

Stine Oftedal Dahmke var lengi fyrirliði norska landsliðsins undir stjórn Þóris Hergeirssonar. EPA-EFE/Bo Amstrup

Mágur hennar, Sander Sagosen, hefur eflaust getað hlegið að þessu líka með eiginkonu sinni, Hanna, systur Stine.

Togstreitan verður eflaust mikil hjá þessari handboltafjölskyldu þegar mikilvægur leikur Þýskalands og Noregs fer fram í kvöld. Innan vallar, uppi í stúku og á sjónvarpsskjánum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×