Danir komnir í undan­úr­slit en Þjóð­verjar þurfa stig gegn Frökkum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Alfreð Gíslason og strákarnir hans í þýska landsliðinu eru enn með örlögin í sínum eigin höndum.
Alfreð Gíslason og strákarnir hans í þýska landsliðinu eru enn með örlögin í sínum eigin höndum. getty/Sina Schuldt

Þýska karlalandsliðinu í handbolta, sem Alfreð Gíslason stýrir, tókst ekki að tryggja sér sæti í undanúrslitum Evrópumótsins í kvöld. Þjóðverjar töpuðu þá fyrir Dönum í Herning, 26-31.

Þýskaland mætir Frakklandi í lokaleik sínum í milliriðli I á miðvikudaginn. Fái Þjóðverjar stig í leiknum komast þeir í undanúrslit.

Með sigrinum í kvöld tryggðu Danir sér sæti í undanúrslitum EM. Þeir hafa ekki orðið Evrópumeistarar síðan 2012 en vilja ólmir binda endi á þá bið á heimavelli í ár.

Danska liðið var einu marki yfir í hálfleik, 12-13, en keyrði svo yfir það þýska í seinni hálfleik.

Markvörðurinn Andreas Wolff, sem fór á kostum í sigri Þýskalands á Noregi á laugardaginn, byrjaði óvænt á bekknum í kvöld. David Späth stóð í þýska markinu og varði níu skot (26 prósent). Wolff varði þrjú af þeim níu skotum (33 prósent) sem hann fékk á sig eftir að hann kom inn á í seinni hálfleik.

Emil Nielsen varði fjórtán skot í danska markinu (35 prósent) og Mathias Gidsel og Simon Pytlick skoruðu sitt hvor átta mörkin.

Renars Uscins var markahæstur í þýska liðinu með sex mörk.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira