Handbolti

Segir að hrokinn hafi orðið Frökkum að falli

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Guillaume Gille, þjálfari franska handboltalandsliðsins, steinhissa á hliðarlínunni í leiknum gegn Spáni.
Guillaume Gille, þjálfari franska handboltalandsliðsins, steinhissa á hliðarlínunni í leiknum gegn Spáni. getty/Sina Schuldt

Að mati sérfræðings TV 2 í Danmörku varð hrokafullt viðhorf franska handboltalandsliðinu að falli í tapinu fyrir því spænska á Evrópumótinu.

Frakkar töpuðu nokkuð óvænt fyrir Spánverjum, 36-32, í næstsíðasta leik sínum í milliriðli II á EM í gær. Frönsku Evrópumeistararnir mæta Þjóðverjum í lokaleik sínum á morgun og verða að vinna til að komast í undanúrslit.

Claus Møller Jakobsen, sérfræðingur TV 2, hreifst ekki af franska liðinu í leiknum gegn Spáni í gær.

„Þetta er gríðarlegt áfall. Ofboðslega hrokafullt viðhorf frá Frakklandi í þessum leik,“ sagði Jakobsen.

Honum fannst Guillaume Gille, þjálfari Frakka, bregðast í leiknum í gær og gagnrýndi leikstjórn hans.

„Þeir fara út og láta Spánverja gjörsamlega keyra yfir sig. Láta spila sig út úr stöðu taktískt án þess að Gille bregðist við. Þetta er ótrúlega léleg þjálfun af hans hálfu,“ sagði Jakobsen.

Lasse Svan, fyrrverandi leikmaður danska landsliðsins, tók í sama streng og Jakobsen.

„Frakkland leit út eins og lið sem hélt að hlutirnir kæmu af sjálfu sér. Þeir höfðu keyrt yfir Portúgal og ætluðu að gera slíkt hið sama við Spán. Það raungerðist ekki. Þeir vissu ekki hvað á þá stóð veðrið,“ sagði Lasse Svan sem fannst skrítið þegar Gille bætti loks við aukamanni í frönsku sóknina undir lok leiks. Að hans mati hefði hann átt að grípa til þess ráðs miklu fyrr.

„Þetta hefði franski landsliðsþjálfarinn átt að gera eftir tíu mínútur í fyrri hálfleik, þegar hann sá að þeir gátu ekki leyst þetta. Ég veit bara ekki hvað ég á að segja. Það er fínt að bregðast við en þetta kom 45 mínútum of seint,“ sagði gamli hornamaðurinn.

Fyrir leikinn í gær hafði Spánn tapað þremur leikjum í röð, í fyrsta sinn á Evrópumóti. Þrátt fyrir sigurinn á Frökkum eru Spánverjar enn í neðsta sæti milliriðils I og eiga afar litla möguleika á að komast í undanúrslit.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×