Fréttir
Tíu mánaða fangelsi fyrir umferðarlagabrot
Kalmaður á þrítugsaldri var dæmdur í tíu mánaða fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag fyrir ítrekuð umferðarlagabrot. Maðurinn hefur margoft verið sviptur ökuréttindum og var ökuréttindalaus og í sumum tilfellum undir áhrifum áfengis, þegar umrædd brot áttu sér stað á síðasta ári. Hann hefur áður hlotið níu dóma fyrir ýmis brot gegn umferðarlögum.
Minni hagnaður hjá Félagsbústöðum
Talsvert minni hagnaður var af rekstri Félagsbústaða í fyrra en árið á undan. Hagnaðurinn í fyrra nam 836 milljónum króna samanborið við rúma 4,6 milljarða krónum árið á undan. Félagsbústaðir eru hlutafélag í eigu Reykjavíkurborgar og á og rekur félagslegt leiguhúsnæði sem úthlutað er af Velferðarsviði Reykjavíkurborgar.

Nefnd mælir með þróun EES samningsins
Nefnd um Evrópumál kynnti niðurstöður skýrslu á fundi með fréttamönnum í dag. Nefndin telur að EES-samningurinn hafi staðist tímans tönn og rétt sé að þróa samninginn um Evrópska efnahagssvæðið áfram, því hann sé sá grundvöllur sem samskipti Íslands og ESB byggir á. Í skýrslunni kemur fram, að búast megi við, að aðildarferlið gagnvart Evrópusambandinu tæki 2-3 ár hér á landi.
Svíar stuðla að kynþáttahatri á Finnum
Svíar draga upp neikvæða mynd af Finnlandi, Finnum og Svíþjóðarfinnum í kennslubókum og stuðla þannig jafnvel að kynþáttahatri. Þetta segir Raija Vahasalo fulltrúi sendinefndar Finna í Norðurlandaráði. Hann sendi fyrirspurn um málið til Jans Björklunds menntamálaráðherra Svía.

Tryggvi ekki matarlaus í yfirheyrslum
Mat var ekki haldið frá Tryggva Jónssyni þegar hann var yfirheyrður á skrifstofu efnahagsbrotadeildar Ríkislögreglustjóra að kvöldi húsleitar hjá Baugi árið 2002. Þetta sagði Sveinn Ingiberg Magnússon lögreglufulltrúi hjá efnahagsbrotadeild Ríkislögreglustjóra þegar settur saksóknari yfirheyrði hann í Héraðsdómi Reykjavíkur nú rétt í þessu.

Methagnaður hjá Goldman Sachs
Bandaríska fjármálafyrirtækið Goldman Sachs skilaði 3,2 milljarða dala hagnaði á fyrsta ársfjórðungi þessa árs, sem lauk í enda febrúar. Hagnaðurinn jafngildir 215,9 milljörðum íslenskra króna og er methagnaður í sögu fyrirtækisins. Þetta er hins vegar þvert á spár greinenda sem gerðu ráð fyrir því að tekjur Goldman Sachs myndi dragast lítið eitt saman.

Viacom ætlar í mál við Google
Bandaríska fjölmiðlasamsteypan Viacom Media hefur tilkynnt að það ætli að höfða mál á hendur netfyrirtækisins Google vegna brota á höfundarrétti. Google keypti YouTube á síðasta ári og segir Viacom að netveitan hafi sýnt þar sjónvarpsefni sem verndað er með höfundarréttarlögum.Samsteypan krefst eins milljarða dala, jafnvirði 67,5 milljarða íslenskra króna, í skaðabætur.

Velja besta ræðumann á Alþingi
Junior Chamber International JCI velur besta ræðumann á Alþingi á morgun þegar eldhúsdagsumræður fara fram. Félagar JCI leggja dóm á ræður þingmanna af þingpöllum. Þetta er í fjórða sinn sem valinn er besti ræðumaðurinn á Alþingi.

Lögregla kölluð til vegna nágrannaerja
Karlmaður á miðjum aldri kallaði eftir aðstöð lögreglu síðdegis í gær vegna grófra hótana sem honum höfðu borist frá íbúa í húsinu. Mennirnir áttu í illdeilum í stigaganginum vegna þrifa á sameign hússins. Íbúarnir höfðu rifist um hver ætti að ryksuga stigaganginn þessa vikuna. Lögregla ræddi við mennina og er málið talið útkljáð. Ekki er þó vitað hvort sameignin hefur verið þrifin.

Lokaspretturinn við álverið í Reyðarfirði
Nítján hundruð manns taka nú lokasprettinn við byggingu álvers Alcoa í Reyðarfirði og er starfsleyfi félagsins loks í höfn, eftir óvenju langt ferli. Starfsmennirnir hafa aldrei verið fleiri og eru Pólverjar í yfirgnæfandi meirihluta, eða um 70 prósent allra starfsmanna. Íslendingar eru aðeins 16 prósent, eða innan við tvö hundruð.

Ábyrgðarlausar upplýsingar um verð veitinga
Þorgils Þorgilsson framkvæmdastjóri veitingastaðarins Carpe Diem er afar ósáttur við fréttaflutning af verðlagi á veitingum staðarins í Sjónvarpinu í gærkvöldi. Hann segir upplýsingar um verðlag á staðnum í fréttatíma RUV og í Kastljósi hafa verið rangar og ábyrgðarlausar. Þorgils segir að á einu ári hafi einungis tveir réttir hækkað í verði á staðnum.

Kastali Drakúla til sölu
Bran-kastali í Rúmeníu, betur þekktur sem heimili Drakúla greifa, er til sölu. Kaupandi þarf að reiða fram jafnvirði tæpra 7 milljarða íslenskra króna fyrir þennan 13. aldar kastala.

Ímynd Íslands vegna hvalveiða verði rannsökuð
Utanríkisráðherra telur að rannsaka þurfi áhrif hvalveiða á ímynd Íslands erlendis eftir kosningar. Þingmaður Samfylkingarinnar fagnar slíkri könnun en vill að hún verði gerð fyrir kosningar. Valgerður Sverrisdóttir hefur sagt að kanna þurfi áhrif hvalveiða á ímynd og viðskiptahagsmuni Íslands. Mörður Árnason fagnaði þessu á þingi í gær og vildi vita hvort sú könnun yrði gerð í tíma - áður en næsta veiðitímabil hefst.
Stal demöntum fyrir 2 milljarða
Belgíska lögreglan hefur boðið jafnvirði rúmlega 175 milljóna króna fyrir upplýsingar sem leiða til handtöku manns sem stal demöntum úr banka í Antwerpen í síðustu viku. Demantarnir eru metnir á jafnvirði tæplega tveggja milljarða íslenskra króna.

Nauðlending með bilað framhjól
Farþegaflugvél japanska All Nippon flugfélagsins var nauðlent í suð-vestur Japan snemma í morgun án þess að nokkurn sakaði. 56 farþegar og 4 manna áhöfn voru um borð. Flugvélin hringsólaði yfir flugvellinum í Kochi í tvær klukkustundir með bilaðan lendingarbúnað að framan. Þegar fullvíst var að hjól kæmi ekki niður var ákveðið að lenda á aftari hjólum. Nef vélarinnar seig svo niður í lendingunni.

Yfirheyrslum yfir Jónínu frestað
Jónína Benediktsdóttir mætti til yfirheyrslu í Baugsmálinu í Héraðsdómi Reykjavíkur nú fyrir hádegið. Hún þurfti frá að hverfa vegna þess að yfirheyrslur yfir Arnari Jenssyni, fyrrverandi aðstoðaryfirlögregluþjóni efnahagsdeildar Ríkislögreglustjóra, drógust á langinn. Von er á fleiri lögreglumönnum í vitnastúku í dag, en yfirheyrslum yfir Jónínu var frestað til föstudags.

Tsvangirai leiddur fyrir rétt blár og marinn
Morgan Tsvangirai, leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Simbabve, var leiddur fyrir dómara í morgun ásamt fimmtíu bandamönnum sínum. Allir voru þeir handteknir á sunnudaginn. Töluvert sá á Tsvangirai að sögn vitna sem rennir stoðum undir ásakanir um harðræði lögreglu.

Rannsókn Baugsmálsins ekki frábrugðin öðrum rannsóknum
Yfirheyrslur í Baugsmálinu hafa staðið yfir Arnari Jenssyni fyrrverandi aðstoðaryfirlögregluþjóni efnahagsdeildar Ríkislögreglustjóra í morgun. Hann hafnaði því að rannsókn Baugsmálsins hefði verið ólík rannsóknum annarra mála. Tekið hafi verið jafnt tillit til bæði gagna og atriða, sem vörðuðu sekt og sýknu sakborninga.
Langtímafjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar kynnt
Langtímafjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar fram til ársins 2010 var nýverið samþykkt á bæjarstjórnarfundi. Í áætluninni eru ráðgerðar miklar framkvæmdir í bænum næstu ár.

Síminn kaupir breskt símafyrirtæki
Síminn hefur keypt öll hlutabréf í breska farsímafyrirtækinu Aerofone. Fyrirtækið er öflugt þjónustufyrirtæki á breska farsímamarkaðnum. Í tilkynningu frá Símanum segir að markmiðið með kaupunum sé að efla þjónustuna við viðskiptavini félagsins í Bretlandi.

Hagnaður Aer Lingus minnkaði lítillega á milli ára
Hagnaður írska flugfélagsins Aer Lingus nam 90,4 milljónum evra, jafnvirði rétt rúmra 8 milljarða íslenskra króna, fyrir skatta á síðasta ári. Þetta er samdráttur upp á 1,3 prósent á milli ára og skrifast aðallega á hækkun á olíuverði. Barátta Aer Lingus við að verjast yfirtöku írska lággjaldaflugfélagsins Ryanair hefur kostað félagið 16 milljónir evra, rúma 1,4 milljarða íslenskra króna.

Munkar í mauravanda
Búddamunkar í Malasíu eru í mestu vandræðum með að verjast árás rauðmaura – án þess að drepa þá. Munkarnir í Hong HockSee klaustrinu í Kuala Lumpur trúa ekki á ofbeldi og eru því í verulegum siðferðislegum vanda. Rauðmaurarnir hafa plagað klaustrið í heilt ár og einn munkurinn þurfti meðferð á sjúkrahúsi eftir að vera bitinn af maurunum.

Launakostnaður hækkaði á þriðja ársfjórðungi
Heildarlaunakostnaður í samgöngum og flutningum hækkaði um 9,3 prósent á milli þriðja og fjórða ársfjórðungs 2006. Í iðnaði hækkaði launakostnaðurinn um 8 prósent, í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð um 8,4 prósent og í verslun og ýmissi viðgerðarþjónustu um 9 prósent. Þetta kemur fram á vef Hagstofunnar.
Sjálfkjörið í stjórn Existu
Sjálfkjörið er í næstu stjórn Existu, sem tekur til starfa eftir aðalfund félagsins sem haldinn verður á morgun. Ágúst Guðmundsson, Bogi Óskar Pálsson, Guðmundur Hauksson, Lýður Guðmundsson, Robert Tchenguiz og Sigurjón Rúnar Rafnsson hafa gefið kost á sér til stjórnarsetu.

Færeysk vitni í héraðsdómi
Öll vitni sem komu fyrir dóm í Baugsmálinu í gær voru færeysk. Upplýst var að kredityfirlýsing SMS verslunarkeðjunnar til Baugs var hærri en árlegir afslættir og markaðsstyrkur birgja til SMS.

Fyrirtæki taki frekar þátt í öryggismálaumræðu
Ríki og alþjóðastofnanir, víða um heim, ráðfæra sig ekki í nægilega miklum mæli við fyrirtæki í einkageiranum þegar kemur að því að bregðast við öryggisógnum. Þetta segir virtur breskur sérfræðingur í öryggis- og varnarmálum sem kemur í haust til starfa hjá Háskóla Íslands.

Fréttamanni BBC rænt í Gaza-borg
Palestínskir vígamenn rændu í dag fréttamanni Breska ríkisútvarpsins, BBC, í Gaza-borg. Fréttamaðurinn, Alan Johnston, var á ferð í bíl sínum þegar fjórir grímklæddir menn réðust að honum og rændu. Johnston, sem hefur verið að störfum á Gaza-svæðinu í þrjú ár, mun hafa kastað frá sér nafnspjaldi sínu, þegar hann var numinn á brott, svo vitað yrði um afdrif hans.

Dorrit sveiflaði sér í kaðli
Forsetafrúin klifraði upp kaðla með nemendum Ártúnsskóla í Reykjavík og forsetinn var spurður að því hvernig honum þætti að láta gera grín að sér í Spaugsstofunni, þegar þau voru í opinberri heimsókn í skólanum í dag.

Íran næst
Íraksstríðið var ólöglegt að mati Hans Blix, fyrrverandi yfirmanns vopnaeftirlits Sameinuðu þjóðanna í Írak. Hann segir Bandaríkjamenn hafa verið á nornaveiðum í aðdraganda stríðsins og margt sé líkt með honum og stöðunni í kjarnorkudeilunni við Írana nú.

Enn barist við skógarelda
Slökkviliðsmenn, í Suður-Kaliforníu, gera sér vonir um að í kvöld eða nótt verði hægt að ná tökum á skógareldum sem hafa logað í Orange-sýslu síðan snemma í gær. Um 1.200 manns hafa þurft að yfirgefa heimili sín. Erfiðlega hefur gengið að berjast við eldana því vindasamt er á svæðinu, miklir þurrkar og hiti óvenju mikill miðað við árstíma.