Hann er búinn að rífa kjaft við Jose Aldo í tæpt ár. Er hann loksins komst í návígi við hann gerði Conor sér lítið fyrir og rotaði Brasilíumanninn á 13 sekúndum.
Í spilaranum hér að ofan geturðu séð bardagann í heild sinni og lýsingu þeirra Dóra DNA og Bubba Morthens.
Fyrsta tap Aldo í um tíu ár og á þeim tíma hafði hann verið eini heimsmeistarinn í fjaðurvigt. Algjörlega ótrúleg niðurstaða í þessum bardaga.
Þeir óðu í hvorn annan og hittu með vinstri. Höggið hjá Conor var aftur á móti það öflugt að Aldo lá rotaður í striganum. MGM Grand Garden Arena gjörsamlega sprakk í kjölfarið en Írarnir áttu húsið.
Þetta var annars magnað kvöld hjá UFC. Luke Rockhold varð nýr heimsmeistari er hann lagði annan ósigraðan meistara, Chris Weidman. Sá bardagi var geggjaður og stöðvaður í fjórðu lotu. Hungraður Rockhold einfaldlega miklu betri.