Ásdís Hjálmsdóttir endaði í 11. sæti í úrslitum í spjótkasti á HM í frjálsum íþróttum sem fer fram á Lundúnaleikvanginum.
Þetta var frumraun Ásdísar í úrslitum á HM. Hún tryggði sér sæti þar með því að kasta 63,06 metra í undanúrslitunum á sunnudagskvöldið.
Ásdís endaði einnig í 11. sæti á Ólympíuleikunum í London fyrir fimm árum. Frjálsíþróttakeppnin fór þá einnig fram á Lundúnaleikvanginum sem Ásdís virðist kunna vel við sig á.
Ásdís byrjaði á því að kasta 57,38 metra og var í 10. sæti eftir fyrstu umferðina.
Köstin hjá flestum lengdust í annarri umferðinni, þ.á.m. Ásdísi sem kastaði 60,16 metra og lyfti sér upp í 9. sætið.
Ásdís átti möguleika á að komast inn í átta kvenna úrslit með góðu kasti í þriðju umferðinni. Það gekk ekki eftir því hún gerði ógilt. Ásdís var í 10. sæti en lækkaði svo um eitt sæti og 11. sætið því niðurstaðan.
Uppfært 19:50
Barbora Spotáková hrósaði sigri en lengsta kast hennar var 66,76 metrar. Lingwei Li frá Kína varð önnur með kast upp á 66,25 og landa hennar, Huihui Lyu, þriðja með 65,26 metra kast.
Ásdís ellefta í úrslitum
