Átta leikir fóru fram í 3.umferð enska deildabikarsins í kvöld og áttu úrvalsdeildarliðin í mismiklum vandræðum með lið úr neðri deildum.
Gylfi Þór Sigurðsson lék síðasta korterið fyrir Everton sem vann 0-2 sigur á Sheffield Wednesday þar sem Dominic Calvert Lewin gerði bæði mörk Everton snemma leiks.
Englandsmeistarar Manchester City áttu ekki í nokkrum vandræðum með Preston North End og lögðu lærisveinar Pep Guardiola grunninn að sigrinum í fyrri hálfleik þar sem Raheem Sterling og Gabriel Jesus voru á skotskónum.
Tottenham hins vegar lenti í miklum vandræðum gegn D-deildarliði Colchester United þar sem liðin gerðu markalaust jafntefli í venjulegum leiktíma. Colchester vann svo vítaspyrnukeppnina þar sem Christian Eriksen og Lucas Moura klúðruðu sínum spyrnum.
Colchester vann Crystal Palace í 2.umferð deildabikarsins. Alvöru bikarævintýri.
Tottenham þar með eina úrvalsdeildarliðið sem féll úr leik í kvöld en 3.umferðin heldur áfram annað kvöld.
Úrslit kvöldsins
Arsenal 5-0 Nottingham Forest
Colchester 0-0 Tottenham (Colchester vann eftir vítaspyrnukeppni)
Crawley 1-1 Stoke (Crawley vann eftir vítaspyrnukeppni)
Luton 0-4 Leicester
Portsmouth 0-4 Southampton
Preston 0-3 Man. City
Sheffield Wednesday 0-2 Everton
Watford 2-1 Swansea
