Viðskipti innlent

Markaðurinn vanmetur áhættu

Íslenskur hlutabréfamarkaður hefur tekið út ríflega það sem hann á inni að mati Greiningardeildar Landsbankans. Vænt ávöxtun hlutabréfa er neikvæð til næstu tólf mánaða. Það þarf þó ekki að þýða að bréf muni fara lækkandi. Greiningardeildin segir almenna bjartsýni einkenna markaðinn, þótt hann sé hátt verðlagður. Haldi markaðurinn áfram að hækka á þeim hraða sem verið hefur aukist líkur á að verðleiðrétting eigi sér stað. Greiningardeildin telur fjárfesta gera lægri ávöxtunarkröfu á fjárfestingar sínar en undirliggjandi áhættumat gefi til kynna að hennar eigin mati. Seðlabankinn hefur hækkað stýrivexti tvisvar á skömmum tíma og búast má við áframhaldandi hækkun þeirra. Erlendir Seðlabankar eru einnig í hækkunarfasa. Áhrif hækkunar stýrivaxta er neikvæð fyrir hlutabréf, þar sem áhættulausir vextir hækka, en þeir eru grunnur verðmats annarra pappíra á markaði. Greiningardieldin telur að kennitölur fyrirtækja gefi til kynna að miklar væntingar til batnandi afkomu fyrirtækja séu verðlagðar í hlutabréf um þessar mundir.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×