Viðskipti innlent

KB banki á sænska úrvalslistann

KB-banki hefur verið skráður á úrvalslista kauphallarinnar í Stokkhólmi, fyrstur íslenskra fyrirtæka. Er bankinn þar með kominn í hóp fjörtíu öflugustu fyrirtækjanna í sænsku kauphöllinni. Þetta er talið auka mjög möguleika bankans í tengslum við fyrirhugað tugmilljarða hlutafjárútboð. "Þetta eykur sýnileika bréfa félagsins og að öllu jöfnu áhuga fjárfesta á bankanum," sagði Sigurður Einarsson, forstjóri KB-banka í samtali við Fréttablaðið. Í kjölfar kaupa KB-banka á danska FIH-bankanum um síðustu helgi tilkynntu stjórnendur KB að framundan væri 35-45 milljarða króna hlutafjárútboð. Að sögn Sigurðar mun skráning KB á úrvalslistann í Stokkhólmi auðvelda útboðið en stjórnendur KB hafi þó verið bjartsýnir á að slíkt útboð myndi ganga vel óháð skráningunni á úrvalslistann. "Þetta hefur auðvitað áhrif á auðseljanleika bréfanna í Svíþjóð og mun þannig verða eitt af þeim atriðum sem auðveldar útboðið," segir Sigurður. Skráningin á úrvalslistann hefur til að mynda þau áhrif að stórir sjóðir munu frekar fjárfesta í KB en slíkir sjóðir fjárfesta alla jafna ekki í fyrirtækjum nema þau séu á úrvalslistanum. Yfirlýst stefna KB-banka er að verða leiðandi banki á Norðurlöndum og ljóst er að með svo örum vexti sem bankinn hefur verið í þarf hann að sækja sér hlutafé á markað. Hlutafjáraukningin sem framundan er er mjög stór á íslenskan mælikvarða, eða litlu minni en áætlað söluverð Landssímans. Sænski markaðurinn er hins vegar margfalt stærri en sá íslenski og möguleikar að sækja sér hlutafé á markað til stækkunar rýmkast þvi verulega við skráninguna á úrvalslistann.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×