Viðskipti innlent

Húsbréfum skipt í íbúðabréf

Eigendur húsbréfa og húsnæðisbréfa geta skipt bréfum sínum í íbúðarbréf til 1. júlí. Það hentar þeim sem nýtt hafa bréfin í sparnaðarskyni. Hallur Magnússon, sviðstjóri þróunar- og almannatengsla hjá Íbúðarlánasjóði, segir að verið sé að bjóða skipti á ákveðnum skiptikjörum. Þau verði aðeins í boði í þetta eina sinn. "Þeir sem hafa notað húsbréf til síns sparnaðar og þeir sem hafa fjárfest í þeim, eins og bankar, verðbréfasjóðir og lífeyrissjóðir, býðst að skipta húsbréfunum fyrir íbúðarbréf sem við teljum að verði markaðsvænni, seljanlegri og verðmeiri til lengri tíma," segir Hallur. "Greiningadeildir bankanna hafa bent á að með tímanum minnki það yfirverð sem er á húsbréfunum núna og þau verða því ekki eins seljanleg og þessi nýju íbúðabréf. Það er kjarni málsins í þessum skiptum." Hallur segir að vilji fólk kynna sér málið betur geti það haft samband við bankann sinn, sparisjóðinn eða verðbréfafyrirtæki sem það skiptir við og fengið leiðbeiningar.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×