Viðskipti innlent

Ísland í 14. sæti í frjálsræði

Ísland er í 14. sæti á lista yfir þær þjóðir þar sem mest frjálsræði er í efnahagsmálum samkvæmt nýrri skýrslu frá Fraser-stofnuninni í Kanada. Forstöðumaður Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands segir þetta viðunandi stöðu en auka megi frelsi hér á landi enn frekar með því að aflétta hömlum á landbúnaðarvörum og lækka skatta. Í skýrslunni „Frjálsræði í efnahagsmálum í heiminum árið 2004“ sem birt var í gær kemur m.a. fram að í þeim löndum þar sem mest frjálsræði ríkir í efnahagsmálum er mestur hagvöxtur og mest fjárfesting að meðaltali á hvern vinnandi mann. Ísland er í 14. sæti á listanum ásamt Danmörku með 7,6 stig af 10 mögulegum en í skýrslunni er 123 löndum gefin einkunn fyrir frelsi í efnahagsmálum. Ísland hefur færst upp listann undanfarinn áratug en fellur þó niður um eitt sæti nú frá árinu 2001 þegar við vermdum 13. sætið. Tryggvi Þór Herbertsson, forstöðumaður Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, segir skýrsluna sýna svo ekki verði um villst að lífskjör almennings séu best þar sem mest frelsi ríkir í efnahagsmálum. Hann segir stöðu Íslands vel viðunandi enda séu lönd eins og Svíþjóð, Noregur, Frakkland, Þýskaland og Japan á eftir okkur á listanum. Tryggvi segir að enn sé þó ýmislegt sem megi bæta, t.d. með því að aflétta hömlum af utanríkisviðskiptum með landbúnaðarvörur og nýta skatttekjur betur með því að lækka skatta.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×