Erlent

Embættismanni rænt í Írak

Háttsettur embættismaður frá Egyptalandi er nú í haldi írakskra skæruliða ásamt sjö öðrum gíslum. Egyptinn, Momdoh Kotb að nafni, er einn af aðalerindrekum Egypta í Írak og segjast skæruliðarnir hafa tekið hann í gíslingu vegna tilboðs Egypta um að hjálpa til við öryggismál í landinu. Kotb er fyrsti embættismaðurinn sem skæruliðar taka í gíslingu í Írak í þeirri miklu mannránshrinu sem þar gengur nú yfir. Utanríkisráðherra Egypta hefur lýst því yfir að hvorki hermenn né embættismenn verði sendir til Íraks frá Egyptalandi á meðan Kotb er í gíslingu. Flestir þeirra sem rænt hefur verið undanfarið starfa sem vörubílstjórar en ránið á Kotb bendir til þess að mannræningjar leiti nú að áhrifameiri einstaklingum til að taka í gíslingu. Aðgerðir skæruliða setja strik í reikninginn fyrir Iyad Allawi, forætisráðherra Íraka, sem hitti forætisráðherra Egypta á fimmtudaginn og reyndi að sannfæra hann um að senda herlið til Írak. Óvíst er hvort af því verði nú. Í morgun rændu vígamenn í Írak einnig yfirmanni ríkisrekins byggingafyrirtækis í Bagdad. Talsmaður írakska innanríkisráðuneytisins segir að óþekktir vopnaðir menn í tveimur bílum hafi rænt yfirmanni Al-Mansour byggingafyrirtækisins þar sem hann ók bíl sínum í hverfi í suðausturhluta Bagdad. Vígamennirnir hindruðu bíl mannsins með bifreiðum sínum og námu hann á brott. Fyrirtækið vinnur verk fyrir stjórnarráðið í Írak. Myndin er af kúveisku gíslunum sjö sem mannræningjar í Írak hafa haft í haldi sínu undanfarna daga.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×