Viðskipti innlent

Hálfur milljarður í hagnað

Hagnaður Össurar tvöfaldaðist á milli ára. Hagnaður annars ársfjórðungs nam 281 milljón króna. Hagnaðurinn er talsvert meiri en greiningardeildir höfðu spáð. Greiningardeildir bankanna spáðu að hagnaður annars ársfjórðungs yrði á bilinu 157 til 236 milljónir króna. Hagnaður fyrri árshelmings er rúmur hálfur milljarður. Sala Össurar jókst um rúm 40 prósent milli ára á öðrum ársfjórðungi. Salan nam 31,2 milljónum dollara eða 2,3 milljörðum króna og hefur aldrei verið meiri á einum ársfjórðungi. Vöxtur var í starfsemi Össurar á öllum markaðssvæðum þess. Mestur var vöxturinn í Bandaríkjunum, en hann skýrist að stórum hluta af kaupum Össurar á Generation II. Vöxtur á öðrum markaðssvæðum var góður og skýrist hann að stærstum hluta af innri vexti í starfsemi félagsins. Stjórnendur Össurar telja útlit fyrir næsta ársfjórðung þokkalegt. Í haust hefst sala á tölvustýrðu gervihné sem verið hefur í þróun hjá félaginu. Að sögn forsvarsmanna fyrirtækisins hefur kynning þessarar nýju vöru gengið vel og hún vakið mikla athygli.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×