Erlent

Blóðbað í Baqouba

Yfir fimmtíu manns fórust og fjörutíu slösuðust í sjálfsmorðsprengjuárás í borginni Baqouba í Írak í gærmorgun. Árásin átti sér stað fyrir utan lögreglustöð í miðbæ Baqouba, þar sem skráningar fara fram í hinar nýstofnuðu öryggissveitir Íraka. Þeir sem féllu í árásinni voru allir óbreyttir borgarar, að sögn talsmanns bandaríska hersins. Sprengingin var gífurlega öflug en árásarmaðurinn ók bifreið hlaðinni sprengiefni að lögreglustöðinni þar sem hún sprakk í loft upp. Nærliggjandi verslanir gereyðilögðust og bifreiðar á götunni tættust í sundur. Sundurtætt lík lágu um allt í blóðpollum á götunni innan um brak og glerbrot. Árásir andspyrnuafla í Írak hafa verið tíðar í Baqouba en árásin nú er sú mannskæðasta þar frá innrás Bandaríkjamanna og bandamanna þeirra fyrir fimmtán mánuðum. Undanfarnar vikur hafa árásirnar beinst í ríkari mæli að írösku öryggissveitunum og búast stjórnvöld í Írak við því að slíkum árásum fari fjölgandi. Öryggissveitirnar eru taldar mun auðveldari skotmörk en bandaríski heraflinn í landinu og liggja því vel við höggi. Þrátt fyrir ofbeldisölduna í landinu síðustu mánuði og vikur, þokast Írakar sífellt nær lýðræðislegum stjórnarháttum. Um næstu helgi verður haldinn fundur 1000 fulltrúa sem velja munu þingmenn til setu í bráðabirgðaþingi landsins. Hersveitir Bandaríkjamanna munu ásamt öryggissveitum Íraka standa vörð um fundinn en mjög er óttast um að andspyrnuöfl muni láta til skarar skríða. Sameinuðu þjóðirnar höfðu lagt til að fundinum yrði frestað þar til ástandið í landinu batnaði. "Það er mikilvægara að kringumstæðurnar séu þannig að útkoman verði góð heldur en að halda fundinn á réttum tíma," sagði Marie Okabe talskona Sameinuðu þjóðanna. Stjórnvöld í Írak hafa hins vegar verið ófáanleg til að fresta fundinum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×