Viðskipti innlent

Markaðssetning að skila sér

Metfjöldi erlendra ferðamanna hefur sótt landið heim frá því í janúar og er það met á þessum tíma árs. Nýjar tölur Ferðamálaráðs sýna að aukinn fjöldi erlends ferðafólks frá því á sama tíma í fyrra nemur 17 prósentum. "Við erum komin yfir 200 þúsund ferðamenn frá áramótum. Þetta höfum við aldrei séð áður," segir Ársæll Harðarson, sviðsstjóri hjá Ferðamálaráði. Hann segir að annars vegar megi þakka aukninguna uppsveiflu sem hafin sé í ferðaþjónustu um heim allan og hins vegar mjög öflugri markaðsherferð á helstu mörkuðum landsins. "Ekki má gleymast að stjórnvöld hafa síðustu tvö ár sett 600 milljónir í markaðssetningu sem notuð hefur verið mjög markvisst í samstarfi við greinina." Þá segir Ársæll að stóraukið framboð flugsæta og hótelgistingar gera að verkum að fleiri taka á í markaðssetningu. "Það hefur líka verið aukning á fyrstu mánuðum ársins sem sýnir að okkur hefur tekist að auka verulega ferðaþjónustuna utan háannatíma. Það er mjög mikilvægt í þeirri viðleitni að gera þetta að heilsársatvinnuvegi og eins að dreifa ferðamönnum eins mikið um landið og hægt er," segir Ársæll og segir útlitið fyrir allt árið vera nokkuð gott. "Ágúst lítur ágætlega út og ég heyri ekki annað en haustið lofi góðu."





Fleiri fréttir

Sjá meira


×