Viðskipti innlent

Gamlir seldir sem nýir

Nokkuð er um að bílar sem seldir eru á Íslandi sem nýir séu í raun gamlir bílar sem staðið hafa óseldir erlendis jafnvel í nokkur ár. Þetta getur haft í för með sér vandamál þar sem bílar geta skemmst ef þeir standa óhreyfðir. Að sögn Stefáns Ásgrímssonar hjá Félagi íslenskra bifreiðaeigenda hafa fimm slík mál borist á borð félagsins á þessu ári. Í framleiðslunúmeri er meðal annars að finna upplýsingar um í hvaða mánuði bílar hafa verið afgreiddir frá verksmiðju. Þetta framleiðslunúmer er ekki hluti af þeim upplýsingum sem nauðsynlegt er að fylgi skráningarskírteini á íslenskum bílum. Stefán segir Félag íslenskra bifreiðaeigenda vera mjög ósátt við að þær upplýsingar þurfi ekki að fylgja skráningarskírteinum. "Við sem neytendafélag teljum að það sé verið að fara aftan að venjulegu fólki. Satt að segja skiljum við ekki af hverju þetta var gert og af hverju þetta fyrirkomulag er hér," segir Stefán. Hann segir að upp hafi komið mál bæði hjá bílaumboðum og einstaklingum sem flytja inn bíla þar sem þetta hafi verið vandamál. Hann segir að umboðin hafi jafnvel þráast við að gefa upplýsingar um framleiðslunúmer þegar eftir því sé sóst. Stefán segir að ýmsir hlutir í bílum geti skemmst og ryðgað ef bíllinn er ónotaður en þær skemmdir komi svo í ljós þegar bíllinn sé gangsettur. Þar sé meðal annars um að ræða gírabúnað og annað sem ekki situr í olíu þegar bíllinn stendur óhreyfður. Einnig munu vera dæmi þess að bílar sem seldir eru sem nýir hafi orðið fyrir ryðskemmdum af því að standa lengi óhreyfðir utandyra. Erfitt er fyrir kaupendur að sækja rétt sinn í slíkum málum þar sem seljendum er ekki gert að gefa upplýsingar um framleiðslunúmerið.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×