Viðskipti innlent

Tveir þriðju þjóðar á mánuði

Flugleiðir hafa aldrei flutt jafn marga farþega í einum mánuði og í nýliðnum júlí. Farþegar Flugleiða voru 183 þúsund í mánuðinum. Farþegum í júlí fjölgaði um 23 prósent milli ára, en þeir voru 148 þúsund í fyrra. Fyrra metið í farþegaflutningum var í júlí 2001, en fjölgunin stöðvaðist við hryðjuverkin 11. september. "Þetta eru tveir þriðju hlutar þjóðarinnar sem við höfum flutt í einum mánuði," segir Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Flugleiða. Sumarmánuðirnir eru langdrýgstir í tekjuöflun Flugleiða. Aukningin í farþegaflutningum milli landa það sem af er ári er ríflega 20 prósent. Farþegum Flugfélags Íslands í innanlandsflugi fjölgaði einnig, en þó ekki jafn mikið og millilandafarþegunum. Farþegum innanlands fjölgaði um tæp fjórtán prósent. Einnig var vöxtur í fraktflugi milli ára og í leiguflugi. Leigustundum flugvéla Loftleiða - Icelandic fjölgaði um rúm 64 prósent. Fyrstu sjö mánuði ársins hafa leiguflugsstundir tvöfaldast.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×